148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[16:48]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Skoðun mín á frumvarpinu er sú, ég er á því vegna þess að ég tel að við eigum að samþykkja frumvarpið, alla vega öll rök sem ég hef heyrt hingað til. Jafnframt eigum við að hlusta á öll sjónarmið. Það er nákvæmlega það sem Píratar gera, taka afstöðu í ljósi upplýsinga.

Svo er önnur grein í grunnstefnu okkar sem segir að við horfum á málið en ekki hver sé flutningsmaður þess, horfum málefnalega á málið, styðjum það ef það er í anda okkar grunnstefnu, sem er að vernda borgararéttindi og lýðræðisumbætur. Svo líka það sem stendur í grunnstefnu okkar að við eigum að skipta um skoðun í ljósi nýrra upplýsinga og gagna. Píratar eru alltaf galopnir fyrir nýjum upplýsingum.

Grunnstefnan segir okkur að vernda og efla borgararéttindi, og í þessu tilfelli finnst mér það vega þyngra og finnst ekki að trúarréttindin séu þannig að menn geti ekki vikið af því án þess að brjóta sáttmálann á endanum. Þeir eru búnir að vera að víkja út af sáttmálanum. Þess vegna er ég að horfa til þess. Þá verður alltaf þetta óafturkræfa inngrip í sjálfræði einstaklingsins og vernd barnsins ofan á. En eins og ég segi, þess vegna er ég að leggja fram á hvaða forsendum það er sem ég tek þessa afstöðu. Því að ég er algerlega opinn fyrir að heyra öll sjónarmið. Eins og þingmaður heyrir er ég einmitt að skoða öll sjónarmið. Ástæða þess að ég fer í trúarsöguna o.s.frv. er að fólk tekur sína afstöðu og andstöðu við frumvarpið á grundvelli þeirrar sannfæringar.