148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[17:23]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni fyrir ræðu sína, sem var að sjálfsögðu flutt af þekkingu og góðu viti eins og við var að búast.

Ég hjó eftir einu í ræðu hv. þingmanns sem vakti gleði mína. Hann orðaði það einhvern veginn þannig þegar hann ræddi um þessi mál og inngrip sem væru óafturkræf eða gerð án samþykkis: Við erum bara ekki þannig samfélag. Það gladdi mig. Ég tek undir það. Ég held að við viljum ekki vera þannig samfélag.

Ég vil minna, ekki sérstaklega hv. þingmann heldur líka okkur sjálf á að það er nú ekki ýkja langt síðan við gerðum hluti sem ekki voru fallegir. Þar má nefna ófrjósemisaðgerðir án vitundar fólks. Talsvert hefur verið talað um intersex börn í fortíð. Ég skal ekkert fullyrða nákvæmlega um hvernig það er í dag, en ýmislegt hefur verið gert sem við myndum ekki eða viljum ekki samþykkja núna. Við höfum haft vissa þöggun um sum atriði.

Ég segi þetta núna og tala til okkar allra, ég er ekki að tala neitt sérstaklega til hv. framsögumanns, að við þurfum líka að gæta þess í allri umræðu að við munum líka að við höfum stundum í fortíð verið breysk á svellinu, bara svo það sé sagt.