148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

hæfi dómara í Landsrétti.

[15:18]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það mál sem hv. þingmaður nefndir hér er eiginlega tvíþætt: Annars vegar það dómsmál sem er í gangi og varðar hæfi dómara þar sem Landsréttur hefur úrskurðað en það mál er til umfjöllunar hjá Hæstarétti. Hv. þingmaður segir að síðan muni málið fara til Mannréttindadómstólsins. Það kann að vera, ég get ekki fullyrt um þá niðurstöðu, ekki frekar en ég get fullyrt um niðurstöðu Hæstaréttar. Mér finnst mjög mikilvægt að dómsvaldið ljúki umfjöllun sinni. Bara svo ég segi það og ítreki það, af því að hv. þingmaður nefnir þessi mál.

Síðan er hitt, sem lýtur að því sem við erum áður búin að ræða í þessum sal sem varðar dóm Hæstaréttar sem féll þessi máli og snýst um að rannsóknarskyldu stjórnsýsluréttar hafi ekki verið fylgt sem skyldi. Vísar hv. þingmaður í bréf umboðsmanns Alþingis sem ég sá framan á Fréttablaðinu í dag. Þar er fjallað um ráðgjafarskylduna sem skilgreind er í lögum. Ég á þó eftir að kynna mér nánar það sem stendur í bréfinu, hvernig það er nákvæmlega skilgreint að ráðherrar skuli fylgja þeirri ráðgjöf sem þeir fá. Þar er fyrst og fremst kveðið á um að þeir leiti sér ráðgjafar, eftir því sem ég gat lesið út úr því sem ég sá í gögnum málsins. Það er kannski ástæða til að skýra hvernig við skilgreinum annars vegar þá skyldu að leita sér ráðgjafar og hins vegar þá frumkvæðisathugun sem umboðsmaður boðar um hvernig staðið sé að mati á umsækjendum í opinber störf og hvað varðar stigagjöfina sem umboðsmaður boðar að hann muni taka upp frumkvæðisathugun á.

Ég held að full ástæða sé til að við skoðum það í stjórnsýslunni, þ.e. annars vegar ákvæði sem þar eru um þá ráðgjöf sem ráðherra leitar sér og hins vegar það ferli sem fer í gang við þá stigagjöf sem umboðsmaður boðar að tekin verði upp í frumkvæðisathugun.