148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

biðlistar á Vog.

[15:22]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. 21. febrúar síðastliðinn barst skriflegt svar frá hæstv. heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá þeim er hér stendur. Fyrirspurnin var þessi, með leyfi forseta:

„Hvernig hyggst ráðherra bregðast við löngum biðlistum á sjúkrahúsið Vog til þess að draga úr vanda þeirra sem þurfa á meðferð að halda, ekki síst útigangsfólks?“

Í svari ráðherra er farið yfir stöðu mála og m.a. kemur fram að gríðarleg aukning hafi orðið á biðlistum síðustu ár. Í janúar 2018 voru 570 á biðlista, í ágúst 2017 445 og árið 2013 fór fjöldinn í fyrsta sinn yfir 300 manns sem var á biðlista og á síðustu fjórum mánuðum hefur orðið 28% aukning. Aukningin á biðlistum á sjúkrahúsið Vog hefur því aukist um 90% síðan 2013.

Af þessum tölum má sjá svo ekki verður um villst að aukning á biðlistum á Vog er gríðarleg og eru í dag um 600 manns á biðlista á sjúkrahúsið Vog. Það skýtur skökku við að á einum stað í svari ráðherra er sagt, með leyfi forseta:

„Þá hafa greiðslur úr ríkissjóði til SÁÁ, […] einnig aukist á síðustu árum til að mæta aukinni þörf á þeirri þjónustu sem SÁÁ sinnir. SÁÁ fékk árið 2012 greiddar 658 millj. kr. […] árið 2015 voru það 776,1 millj. kr. og árið 2018 verða greiddar 914 millj. kr. til starfseminnar.“

Þarna er verið að bera saman tölur á ósambærilegu verðlagi sem verður til þess að fjárframlög ríkisins virðast hafa hækkað þegar þau hafa í raun og veru lækkað töluvert frá árinu 2012 og umtalsvert frá hruni.

Ég vil ekki trúa að vísvitandi sé verið að slá ryki í augu fyrirspyrjanda eða SÁÁ-manna, en spyr ráðherra: Megum við eiga von á raunverulegum aðgerðum frá ríkinu til handa sjúkrahúsinu á Vogi (Forseti hringir.) með þeim bráðavanda sem blasir við, með um 600 manns á biðlista?