148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

biðlistar á Vog.

[15:28]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég treysti hv. þingmanni til að halda heilbrigðisráðherranum við efnið í þessum efnum. Málaflokkurinn er afar víðtækur, en ég verð að segja að okkur skortir í raun stefnu í áfengis- og vímuvörnum á Íslandi. Eitt af því sem er til skoðunar og umfjöllunar núna í heilbrigðisráðuneytinu er stefnumörkun í þessum málaflokki. Þar eru þau mál undir sem hv. þingmaður nefnir hér.

Ég vil líka nefna gríðarlega mikilvægt frumkvæði Rótarinnar í málefnum þeirra sem glíma við áfengis- og vímuefnavanda. Ég held að það sé einsýnt að við þurfum að hleypa að sem flestum sjónarmiðum þegar við ræðum stefnumörkun til framtíðar í þessum viðkvæma málaflokki. Það er sannarlega þannig að þessi hópur þarf ekki síður á heildstæðum stuðningi heilbrigðiskerfisins að halda en aðrir hópar.