148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

skýrsla greiningardeildar ríkislögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi.

[16:23]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Í þessari skýrslu, svo að skilaboðin séu alveg skýr, er greiningardeild ríkislögreglustjóra að segja okkur að lögreglan geti ekki sinnt skyldu sinni, geti ekki gætt öryggis okkar, geti ekki verndað borgararéttindi í landinu, út af því að hún hafi ekki mannafla til þess. Það er það sem er verið að segja. Hún getur ekki sinnt þeirri grunnskyldu sinni að vernda borgararéttindi, vernda fólk gegn mansali, vernda borgarana í landinu, vegna manneklu. Færir lögreglan rök fyrir máli sínu í skýrslunni? Já, alveg skýrt. Hún notar líkan Sameinuðu þjóðanna til að meta þessa áhættu og benda á hvernig líkur aukast eftir því sem menn hafa getu og þekkingu á því að brjóta af sér og eftir því sem þeir sjá fram á að þeir komist upp með það og nái því fram.

Hvað segir lögreglan? Ef við hefðum meiri mannafla gætum við minnkað áhuga þeirra á því að koma hingað út af því að við erum að standa okkur í því að stöðva þetta. Það er það sem þeir eru að segja. Það vantar mannafla. Og til þess að ráða þessa aukalögreglumenn vantar peninga. Það er það sem þetta snýst um. Það snýst um að það vantar meiri fjármuni til lögreglunnar.

Píratar ganga út frá því að vernda borgararéttindi, það er grunnurinn í stefnu okkar og einnig lýðræðisumbætur. Við höfum alltaf talað fyrir því að setja þurfi meiri peninga í löggæslu út af því að annars verndar þú ekki borgararéttindi. Og það er verið að segja að það sé ekki hægt að gera það núna vegna manneklu. Það er það sem þessi skýrsla er að segja okkur. Annaðhvort eru settir meiri peningar — og þá kemur það fram í fjármálaáætlun sem lítur dagsins ljós á næstunni, í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar — til lögreglunnar eða að ríkisstjórnin getur ekki sagst vera að bregðast við mati út frá líkani Sameinuðu þjóðanna um áhættu varðandi (Forseti hringir.) skipulagða glæpastarfsemi. Ekki er verið að bregðast við því að vernda réttindi borgaranna hvað þetta varðar. Þetta er hjá ríkisstjórninni.