148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

úrskurðir sýslumanns í umgengnismálum.

229. mál
[16:35]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður hefur beint til mín fjórum spurningum, sýnist mér. Ég vil nefna það í upphafi að samkvæmt barnalögum á barn auðvitað rétt á að umgangast með reglubundnum hætti það foreldra sinna sem það býr ekki hjá, enda sé það ekki andstætt hagsmunum barnsins. Á grundvelli ákvæða barnalaga úrskurðar sýslumaður um inntak umgengnisréttar, skilyrði og hversu honum verði beitt. Sýslumaður getur einnig hafnað því að ákveða inntak umgengnisréttar ef slík úrlausn þykir barni fyrir bestu.

Í úrskurðum sýslumanna er stundum að finna ákvæði um það hvernig háttar til ef umgengni fellur niður vegna óviðráðanlegra ástæðna, t.d. vegna veikinda barns eða foreldra. Það er þó ekki fortakslaust að slíkt ákvæði sé að finna í úrskurði sýslumanns og það getur jafnframt verið mismunandi hvort kveðið sé á um það hvort umgengni skuli fara fram næstu helgi, við fyrsta tækifæri eða einungis að umgengni skuli bætt upp. Þá er í sumum úrskurðum ekkert tiltekið um framangreint. Það kann að vera mismunandi hvort þetta sé hluti af ágreiningsefni aðila og hvort það komi fram krafa um að kveða á um slíkt í úrskurði sýslumanns. Því er ekki um það að ræða að sýslumenn hafi sett sér verklagsreglur um slíkt.

Í stöðluðum eyðublöðum um samninga um umgengni sem er að finna á vef sýslumanna er tekið fram að ef umgengni fellur niður vegna óviðráðanlegra aðstæðna falli umgengni niður það skiptið og óskylt er að bæta hana upp síðar. Þess má þó geta að foreldrar eru ekki bundnir af því að semja með þessum hætti. Meginreglan í þessum málum er auðvitað að menn semji um sem flest í þessum efnum. Það er farsælast ef foreldrar geta komið sér saman um það en í mörgum tilvikum hefur sýslumaður metið það nauðsynlegt að kveða á um slíkt í úrskurði til að koma í veg fyrir óvissu hvað þetta varðar.

Í úrskurðum ráðuneytisins hafa ekki verið gerðar athugasemdir við ákvæði í úrskurðum sýslumanna um það hvort og hvernig eigi að bæta upp umgengni sem fellur niður vegna óviðráðanlegra ástæðna. Það er mat ráðuneytisins að slík ákvæði í úrskurðum falli undir heimild sýslumanna til að ákveða inntak umgengnisréttar, skilyrði og hversu honum verði beitt í samræmi við 47. gr. barnalaga. Ég vil þó geta þess að kannski væri rétt að skoða hvort það mætti leiðbeina embættum sýslumanna um að gæta meira samræmis hvað slík ákvæði varðar en aftur á móti þarf einnig að hafa í huga að ávallt þarf að meta hvert einstakt mál út frá hagsmunum barns sem um ræðir. Að mati ráðuneytisins er að minnsta kosti erfitt í ljósi þess hversu mál eru mismunandi og kröfur ólíkar og ólíka nálgun þarf í hverju máli að setja einhverja algilda reglu hvað þetta varðar. En það er nauðsynlegt að inntak umgengni sé háð mati í hverju máli fyrir sig og hvað barni sé fyrir bestu og hverjar þarfir barnsins séu.

Það er spurt um viðtöl sýslumanns við börn þar sem kannaður er vilji barns gagnvart umgengni og hvort þá þurfi ekki að vera fulltrúi barnaverndar viðstaddur, en samkvæmt barnalögum getur sýslumaður á öllum stigum máls leitað liðsinnis sérfræðinga í málefnum barna. Sýslumaður getur t.d. falið sérfræðingi að kynna sér viðhorf barns eða foreldris og gefa skýrslu um það. Þá getur sýslumaður falið sérfræðingi að gefa umsögn um tiltekin álitaefni þegar ástæða þykir til og getur mælt svo fyrir að sérfræðingur hafi í þessu skyni heimild til að afla gagna.

Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til breytinga á barnalögum sem tóku gildi 1. janúar 2013 var tekið fram að mikilvægt væri að átta sig á því að flest forsjár- og umgengnismál væru alls ekki barnaverndarmál heldur bæri að leysa þau eingöngu á grundvelli barnalaga jafnvel þótt þau væru snúin og erfið. Nauðsynlegt væri að barnalögin í heild sinni tækju mið af þessu og að þau hefðu að geyma heildstæð ákvæði um alla málsmeðferð, lausnir og úrræði sem duga til að tryggja velferð þeirra sem í hlut eiga. Í almennum athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til breytinga á barnalögum kemur einnig fram að telja verði óheppilegt að barnaverndarnefndir hafi þeim hlutverkum að gegna við lausn ágreinings um umgengni eða framkvæmd umgengni. Gert var ráð fyrir því að fara aðrar leiðir til að mæta þörfum barns. Eingöngu sé gert ráð fyrir hlutverki barnaverndarnefndar við þær aðstæður þegar framkvæma þarf ákvörðun um forsjá, lögheimili eða umgengni með aðför enda verður að telja þau mál mjög sérstaks eðlis.

Það er einnig spurt um upptökur á viðtölum við börn en upptaka á viðtali við barn með það að markmiði að foreldrar barns geti fengið aðgang að slíkri upptöku er að mati ráðuneytisins ekki til þess fallin að auðvelda barni að fara í slíkt viðtal og eiga samskipti við foreldri í kjölfarið, svo ég svari því nú í stuttu máli.

Svo er spurt hvort settar hafi verið leiðbeiningar eða starfsreglur fyrir meðferð sýslumanns á umgengnismálum eins og gert er ráð fyrir. Þá er rétt að geta þess að barnasáttmálinn segir að aðildarríki skuli sjá til þess að stofnanir þar sem börnum skal veitt umönnun og vernd (Forseti hringir.) starfi í samræmi við reglur sem þar til bær stjórnvöld hafa sett, einkum um öryggi, heilsuvernd, fjölda og hæfni starfsmanna en ákvæðið leggur ekki skyldu á ríkið að tryggja að löggjöf eða reglur gildi um alla (Forseti hringir.)starfsemi stofnana þar sem börnum er veitt þjónusta og umönnun.