148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

úrskurðir sýslumanns í umgengnismálum.

229. mál
[16:41]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og að koma þessari umræðu af stað, en maður ræðir þetta allt saman ekki á einni mínútur þar sem þetta er mjög vandmeðfarinn og flókinn málaflokkur en mikilvægur.

Það sem ég vil leggja hvað mesta áherslu á er að leitað verði allra leiða til að tryggja það að umgengni fari fram með sem eðlilegustum hætti, hvort sem hún er eftir samkomulagi, eftir úrskurði eða er dæmd umgengni. Það er mjög mikilvægt að þetta geti farið fram með eðlilegum hætti og ef eitthvað kemur upp á — því að ef búið er að samþykkja þetta eða dæma um þetta þá hlýtur það að vera barninu fyrir bestu, við erum búin að fara í gegnum það — þá þarf að vera hægt að framfylgja því án þess að fara í tímafrekar og kostnaðarsamar aðgerðir til þess að láta þetta ganga eins og samkomulagið eða dómurinn kveður á um.