148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

úrskurðir sýslumanns í umgengnismálum.

229. mál
[16:46]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegi forseti. Það er algjörlega óraunhæft að svara jafn efnismiklum spurningum hér með þessum hætti. Það hefði kannski verið álitaefni fyrir hv. þingmann að beina þessari fyrirspurn til skriflegs svars. Ég hef þó reynt að fara aðeins yfir þetta. Ég árétta það sem ég sagði, að ekki væri um að ræða samræmt verklag sýslumanna. Hins vegar kann að vera að einstök embætti setji sér verklag; það er ekkert óeðlilegt eða útilokað að þau hafi gert það með einhverjum hætti. En það er ekki um það að ræða að það sé samræmt. Ég nefndi líka að mér fyndist alveg koma til greina að ráðuneytið myndi leiðbeina sýslumönnum í þeim tilgangi að samræmið yrði meira hvað þetta varðar.

Hvað varðar starfsreglur eða leiðbeiningar fyrir meðferð sýslumanns á þessum málum í samræmi við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna — kann að vera að ég hafi mismælt mig, ég man það þó ekki alveg, í fyrra svari mínu — en ég vildi nefna að ákvæðið leggur þá skyldu á íslenska ríkið að tryggja að löggjöf eða reglur gildi um starfsemi allra stofnana þar sem börnum er veitt þjónusta. Þegar kemur að forsjár- og umgengnismálum gilda barnalög þar sem meðal annars er að finna reglur um málsmeðferð slíkra mála. Auk þess hafa grundvallarreglur barnasáttmálans verið sérstaklega lögfestar í 1. gr. barnalaga. Málsmeðferðarreglurnar eiga til að mynda að tryggja að við uppkvaðningu úrskurðar sýslumanns um umgengni liggi fyrir nægar upplýsingar, m.a. vilji barnsins, hafi það til þess aldur og þroska, til þess að sýslumaður geti tekið þá ákvörðun um umgengni sem barni er fyrir bestu. Að sjálfsögðu gilda einnig stjórnsýslulög um málsmeðferðina þar sem barnalögum sleppir.

Allt skiptir þetta máli þegar leitast er við að úrskurða um umgengni sem er barni fyrir bestu. Aðstæður í hverju máli geta verið misjafnar en úrskurð í hverju máli skal ávallt byggja á því sem barni í því tiltekna máli er fyrir bestu.