148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

kostnaður við hjúkrunarheimili og heilbrigðisþjónustu.

140. mál
[16:52]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson beinir hér til mín munnlegri fyrirspurn um kostnað við hjúkrunarheimili og heilbrigðisþjónustu. Ég freista þess að svara spurningum í þeirri röð sem hann ber þær upp.

Í fyrsta lagi spyr hann hve stór hluti kostnaðar við rekstur hjúkrunarheimila sé vegna heilbrigðisþjónustu við heimilismenn og hve stór hluti vegna annarrar þjónustu svo sem félagsþjónustu.

Svarið er á þá lund að greiðslur vegna almennra dvalar- og hjúkrunarrýma skiptast í dvalarkostnað, gjald fyrir grunnheilbrigðisþjónustu og húsnæðisgjald. Hjúkrunarheimili fá til viðbótar greitt fyrir hjúkrunarþjónustu í hjúkrunarrýmum og saman mynda þessir liðir daggjald.

Dvalarkostnaður er sólarhringsþjónusta í dvalar- og hjúkrunarrými og er ætlað að mæta öllum kostnaði vegna dvalarinnar nema grunnheilbrigðisþjónustu og hjúkrunarþjónustu í hjúkrunarrými. Dvalarkostnaður er um 41,7% af meðalgjaldi fyrir hjúkrunarrými, en grunnheilbrigðisþjónusta er sólarhringsþjónusta og fellur undir heilbrigðisþjónustu samkvæmt reglugerð nr. 427/2013, um greiðslur öldrunarstofnana fyrir heilbrigðisþjónustu. Grunnheilbrigðisþjónusta er um 3,6% af meðalgjaldi fyrir hjúkrunarrými.

Húsnæðisgjaldi er ætlað að standa undir öllu almennu viðhaldi húsnæðis, umsýslu, fasteignagjöldum og tryggingum, en ekki stofnkostnaði, afskriftum eða meiri háttar endurbótum á húsnæði. Húsnæðisgjaldið er um 6,8% af meðalgjaldi fyrir hjúkrunarrými.

Hjúkrunarþjónusta er sólarhringsþjónusta og fjárhæðin er tengd hjúkrunarþyngdarstuðli hvers hjúkrunarheimilis. Hjúkrunarþjónusta er um 47,90% af meðaldaggjaldi fyrir hjúkrunarrými. Hér var þess freistað að brjóta upp heildartöluna eins og eftir var kallað.

Í öðru lagi spyr hv. þingmaður um það hvort sú sem hér stendur muni taka til athugunar að sömu viðmið verði látin gilda varðandi heildarkostnaðarþátttöku ríkisins vegna heilbrigðisþjónustu við íbúa hjúkrunarheimila og eiga við um aðra landsmenn.

Svarið er á þá leið að hámarksgreiðsluþátttaka heimilismanns í daggjaldi er að hámarki jöfn dvalarkostnaði, samanber spurningu eitt, sem er án grunnheilbrigðisgjalds og án greiðslna vegna húsnæðis og hjúkrunarþjónustu. Framreiknuð fjárhæð þessa árs er 409.104 kr. á mánuði, sem er aðeins lægra en dvalarkostnaður, sem er 417.745 kr. á mánuði.

Íbúar hjúkrunarheimila taka því ekki þátt í greiðslum fyrir heilbrigðisþjónustu og lyf eru þeim einnig að kostnaðarlausu. Ekki hefur komið til álita að íbúar hjúkrunarheimila greiði hluta heilbrigðisþjónustunnar.

Þriðja spurning hv. þingmanns er á þá leið hvort sú sem hér stendur telji að það komi til álita að kostnaðarþátttaka íbúa hjúkrunarheimila verði tekin til endurskoðunar með það fyrir augum að kostnaður þeirra vegna heilbrigðisþjónustu verði ekki meiri en annarra landsmanna.

Forsendur spurningarinnar fela í sér að íbúar hjúkrunarheimila greiði fyrir heilbrigðisþjónustu sem aðrir landsmenn þurfi ekki að greiða fyrir, en þar sem núverandi greiðslufyrirkomulag gerir ekki ráð fyrir að íbúar hjúkrunarheimila greiði hluta af heilbrigðisþjónustu, samkvæmt því svari sem hér er fram borið, þá er ljóst að þeir eiga ekki að standa verr að vígi en aðrir landsmenn hvað varðar umrædda greiðslu fyrir heilbrigðisþjónustu.

Þá má nefna að þáverandi húsnæðis- og félagsmálaráðherra skipaði starfshóp 3. maí 2016 til að skoða breytt greiðslufyrirkomulag á dvalar- og hjúkrunarheimilum, en starfshópurinn er enn að störfum og er vonast til að hann skili tillögum fljótlega.

Virðulegur forseti. Ég vona að þessi svör svari þeim spurningum sem hv. þingmaður ber hér fram.