148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

sjúkraflutningar.

237. mál
[17:12]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er að mörgu að hyggja þegar við fjöllum um sjúkraflutninga og sjúkrabíla. Sú fyrirspurn sem hér er undir er auðvitað töluvert umfangsmikil og snýr að þessum mikilvægu málum.

Við höfum auðvitað rætt við ráðherra um stöðuna í Ólafsfirði, í Fjallabyggð, og höfum lýst óánægju okkar með niðurstöðu Heilbrigðisstofnunar Norðurlands í því máli. Það hefur verið afskaplega illa að því staðið af hálfu heilbrigðisstofnunarinnar. Núna loksins eftir mikinn eftirgang og eftirrekstur á að halda fund að mér skilst, opinn íbúafund, vegna málsins sem verður nú að segjast eins og er að er frekar seint í rassinn gripið. Fólk upplifir það auðvitað að það hafi ekki áhrif á ákvarðanatökur þegar slíkt er viðhaft.

Mér fannst svörin óljós sem fram hafa komið varðandi ýmislegt í því máli, það á sérstaklega við um viðbragðsáætlun vegna ganga, mér fannst það ekki vera alveg á hreinu. Ég vona svo sannarlega að það verði fulltrúi frá ráðuneytinu á þessum fundi sem geti þá svarað spurningum heimamanna sem heilbrigðisstofnunin hefur ekki svör við.