148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

sjúkraflutningar.

237. mál
[17:15]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum sem tekið hafa þátt í þessari umræðu. Ég vil byrja á því að svara hv. fyrirspyrjanda, Guðjóni Brjánssyni varðandi vangaveltur hans hér í lokin.

Það er nokkuð háðskur undirtónn hjá honum, að hér hafi verið tekin ákvörðun um að færa þjónustuna til ráðuneytisins án þess að nokkuð lægi fyrir, nokkur stefnumörkun, hagkvæmnisrök eða neitt því um líkt.

Ég vil biðja hv. þingmann um að sýna sanngirni í þeim efnum að ekki liggi slík úttekt fyrir á þeim vikum sem liðnar eru frá því að sú sem hér stendur tók við embætti. Ég vil minna hann á að uppleggið í spurningu hans er að benda á hið augljósa, að staðan var sú að það voru engir samningar í gangi í þessu máli, þ.e. Rauði krossinn bjó við það að engir samningar voru í stöðunni.

Ég taldi það liggja algjörlega fyrir að rétt væri að ganga hið fyrsta til samninga við Rauða krossinn og nýta svo þessi þrjú ár til þess að greina verkefnið með skýrum hætti. Að það lægi fyrir, bæði gagnvart heilbrigðisþjónustunni og Rauða krossinum, hver væru markmið stjórnvalda í þessu máli.

Ég hefði haldið að öllu jöfnu að við, ég og hv. þingmaður, værum sammála um að sjúkraflutningar ættu að vera partur af hinu opinbera heilbrigðiskerfi. Það kemur mér á óvart ef svo er ekki.

Hér benda hv. þingmenn á þá þætti sem lúta að einstökum ákvörðunum úti um land, þá sérstaklega á norðaustursvæðinu. Ég vil taka undir þær áhyggjur að það er mikilvægt að öryggi sé ekki fyrir borð borið og að heimamenn upplifi að það séu bæði fjárhagsleg og fagleg rök sem liggi að baki sérhverri ákvörðun.

Einnig vil ég taka undir sjónarmið sem fram komu hjá hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni um mikilvægi þess að tvinna saman utanspítalaþjónustuna og fjarheilbrigðisþjónustuna með það að markmiði að tryggja bættan aðgang (Forseti hringir.) almennings að heilbrigðiskerfinu óháð búsetu.