148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

heilbrigðisþjónusta á landsbyggðinni.

244. mál
[17:30]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðjón S. Brjánsson) (Sf):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin sem voru allgreinargóð. Landsbyggðarfólkið okkar er ekki að kalla eftir miklu. Það er að kalla eftir stöðugleika og öryggi í þessari grundvallarþjónustu. Grunnþjónustan er að mínu áliti mikilvægasta þjónustan sem við veitum, þ.e. heilsugæslan. Hún þarf að vera í mjög föstum skorðum svo ásættanlegt sé.

Það hefur auðvitað verið mikið kappsmál að fá sérfræðiþjónustuna út um landið með reglubundnum hætti. Það yrði alveg sérstakur bónus ef landsbyggðin fengi hana. En það verður að segja hverja sögu eins og hún er, það hrundi ansi mikið við efnahagshrunið. Við misstum mikið af fagfólki úr landi. Viðbrögðin voru þau að fá verktaka til starfa. Við það lokaðist launakerfið og þetta urðu verktakar, komu með reikning, launakerfið vissi ekki af því að þessir menn væru við störf og þegar hækkanir urðu voru þessar stofnanir „tjúnaðar“ niður. Í dag hefðu þessar stofnanir ekki efni á að vera með fastlaunaða lækna, eins og nefnt er varðandi Vesturland og Austurland, nema fá leiðréttingu á fjárveitingu.

Ég leyfi mér að spyrja hæstv. ráðherra: Eru einhverjir hvatar í gangi til að fá lækna til starfa? Við erum búin að breyta um greiðslukerfi í Reykjavík. Er eitthvað svipað uppi á teningnum úti á landi? Er fjarheilbrigðiskerfið, oft kallað fjarlækningar, í burðarliðnum? Sjáum við einhver merki um það á næstunni? Og þetta nýja rekstrarfyrirkomulag, er möguleiki á að það berist út um landið?