148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

möguleikar ljósmæðra á að ávísa lyfjum og hjálpartækjum.

268. mál
[17:38]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir hefur beint til mín munnlegri fyrirspurn um möguleika ljósmæðra á að ávísa lyfjum og hjálpartækjum.

Í fyrsta lagi spyr hv. þingmaður um mitt viðhorf til þess að ljósmæður fái heimild til að ávísa tilteknum hormónagetnaðarvarnalyfjum, lyfjum til notkunar við heimafæðingar, sýklalyfjum við sýkingum í brjóstum sem tengjast brjóstagjöf og lyfjum og hjálpartækjum sem að gagni koma vegna ýmissa sjúkdóma og kvilla á meðgöngu.

Svarið er svohljóðandi: Mér er umhugað um að nýta betur fagþekkingu hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra innan heilbrigðisþjónustunnar með það að markmiði að stuðla að skilvirkari heilbrigðisþjónustu án þess að öryggi sjúklinga sé ógnað. Með vísan til þess er mikilvægt að til skoðunar komi tilfærsla afmarkaðra verkefna innan heilbrigðisþjónustunnar til fagstétta sem hafa nægilega fagþekkingu til að veita umrædda þjónustu. Um nokkurt skeið hefur verið til skoðunar að hjúkrunarfræðingar og ljósmæður fái leyfi til að ávísa hormónatengdum getnaðarvörnum en í lögum nr. 25/1975, um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir, er m.a. kveðið á um að fólki skuli gefinn kostur á fræðslu og ráðgjöf um notkun getnaðarvarna og útvegun þeirra. Samkvæmt lögunum skal veita þessa ráðgjöf og fræðslu á heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum og að henni skulu m.a. starfa hjúkrunarfræðingar og ljósmæður. Þessum fagstéttum hefur hingað til ekki verið heimilt að ávísa hormónatengdum getnaðarvörnum en talið er að sú tilhögun hafi haft þau áhrif að árangur ráðgjafarþjónustunnar er varðar notkun getnaðarvarna hefur ekki náðst eins og áætlað var.

Í heilbrigðisráðuneytinu er unnið að heildarendurskoðun á lyfjalögum og stefnt að því að leggja fram frumvarp til heildarendurskoðunar lyfjalaga á næsta þingi. Í þeirri vinnu eru m.a. heimildir hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra til að ávísa tilteknum lyfjum til skoðunar, með það að meginmarkmiði að bæta skilvirkni heilbrigðisþjónustunnar. Hafa verður í huga að umrædd lyf eru þó hvorki aukaverkana- né áhættulaus og því mikilvægt að ávísanaheimildum til hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra fylgi skýrt verklag og eftirlit.

Hvað varðar hjálpartækin er í gildi frá árinu 2013 reglugerð um styrki vegna hjálpartækja en samkvæmt reglugerðinni er gerð krafa um að umsögn heilbrigðisstarfsmanns fylgi fyrstu umsókn sjúklings um hjálpartæki. Í eldri reglugerð um sama efni var gerð krafa um að öllum umsóknum um hjálpartæki fylgdi umsögn læknis og var því breytt. Enn þarf þó umsögn læknis þegar um er að ræða fyrstu umsókn um meðferðarhjálpartæki sem eru til að mynda öndunarvélar, sogtæki, insúlíndælur, blóðsykurnemar og þess háttar. Blóðhnífar og blóðstrimlar falla líka í flokk meðferðarhjálpartækja en þau tæki þarf að nota í þeim tilvikum sem kona greinist með meðgöngusykursýki og krefst fyrsta umsókn um þau því umsagnar læknis.

Rökin fyrir því að heimild til ávísunar meðferðarhjálpartækja er áfram bundin við lækna eru þau að þau tæki eru notuð til meðferðar við ákveðnum sjúkdómum og læknisfræðilegt mat er því grundvöllur meðferðar. Aðrar heilbrigðisstéttir en læknar geta hins vegar gefið umsögn þegar sótt er um endurnýjun hjálpartækja.

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spyr í öðru lagi hvort sú sem hér stendur telji að undirbúningur að því að veita ljósmæðrum framangreinda heimild, svo sem námskeiðahald, geti hafist á næstunni. Þingmaðurinn spyr einnig hvenær breytingin geti átt sér stað teljist hún æskileg.

Svarið er svohljóðandi: Eins og fram kemur í svari við fyrri spurningu er unnið að heildarendurskoðun lyfjalaga og í þeirri vinnu felst m.a. að skoða hvort veita eigi öðrum fagstéttum heimildir til að ávísa lyfjum að einhverju marki. Hvað varðar hjálpartækin hefur ekki sérstaklega verið til umræðu að gera breytingar í þá átt að rýmka heimildir ljósmæðra til að ávísa hjálpartækjum. Hins vegar er það mitt mat að það sé full ástæða til að fara yfir hvort slíkar breytingar séu æskilegar, sérstaklega heimildir ljósmæðra til að ávísa meðferðarhjálpartækjum fyrir þungaðar konur, svo sem blóðstrimlum og blóðhnífum.

Ég mun beita mér fyrir því að þessi athugun fari fram samhliða þeirri vinnu sem nú er unnin og varðar endurskoðun á lyfjalögum og vona að þar með teljist ég hafa svarað spurningum hv. þingmanns.