148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

möguleikar ljósmæðra á að ávísa lyfjum og hjálpartækjum.

268. mál
[17:45]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga efni.

Ég get vel séð fyrir mér, án þess að ég ætli að halda því fram að ég sé einhver sérfræðingur á þessu sviði, að við gætum örugglega nýtt krafta og vinnutíma fólks betur ef hægt væri að koma því inn sem hv. þingmaður vekur athygli á, en um leið tek ég undir að við megum alls ekki gefa neinn afslátt á fagþekkingu, menntun og öðru slíku. Það þarf allt að liggja ljóst fyrir þannig að ein stétt sé ekki að fara inn á svið annarrar, það sé allt klárt. Ég treysti þeim sem um það sjá algjörlega til að sjá um það.

Þetta kemur kannski að því líka að við getum farið að leggja áherslu á meiri teymisvinnu, styrkja umdæmin úti um land, heilsugæsluna þar, þannig að fagfólk í ólíkum stéttum hafi styrk og stoð hvert af öðru. Ég held að það gæti hjálpað okkur til að styrkja heilsugæsluna um allt land.