148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

stuðningur við Fjölskyldumiðstöð Rauða krossins.

223. mál
[17:52]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Fjölskyldumiðstöð Rauða krossins var lokað í lok ársins 2016 og sendi umboðsmaður barna erindi til velferðarráðuneytis og Reykjavíkurborgar vegna þess þann 19. desember 2016.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Eitt af þeim úrræðum sem hefur verið til fyrirmyndar þegar kemur að fjölskylduráðgjöf er Fjölskyldumiðstöðin, en hún hefur undanfarin ár veitt börnum og fjölskyldum þeirra ókeypis ráðgjöf og aðstoð. Þó að fjölskyldur á höfuðborgarsvæðinu eigi vissulega auðveldara með að nýta sér þjónustu hennar hefur hún verið opin öllum fjölskyldum, óháð búsetu. Umboðsmaður barna vísar börnum, foreldrum og öðrum á þetta úrræði í hverri viku og hefur það reynst mörgum fjölskyldum ómetanleg aðstoð.

Umboðsmaður barna hefur fengið þær fréttir að fyrirhugað sé að leggja niður Fjölskyldumiðstöðina. Er það mikið áhyggjuefni að mati embættisins, enda myndi það hafa afar neikvæð áhrif á börn ef þetta mikilvæga úrræði væri ekki til staðar. Umboðsmaður skorar því á alla þá aðila sem hafa komið að rekstri úrræðisins að endurskoða þá ákvörðun og leita allra leiða til þess að halda úrræðinu gangandi. Má í því sambandi minna á að við allar ákvarðanir sem varða börn á það sem er börnum fyrir bestu að vera að leiðarljósi, sbr. meðal annars 3. gr. barnasáttmálans.

Opinberir aðilar eiga að tryggja að fjölskyldum standi sú aðstoð sem þær þurfa til þess að velferð barna sé tryggð. Umboðsmaður barna skorar því sérstaklega á velferðarráðuneytið, velferðarsvið Reykjavíkurborgar og aðra opinbera aðila að styrkja Fjölskyldumiðstöðina.“

Á vefsíðu Rauða krossins var starfi Fjölskyldumiðstöðvar lýst á eftirfarandi hátt, með leyfi forseta:

„Starf Fjölskyldumiðstöðvar miðar að því að aðstoða og styðja barnafjölskyldur í vanda, til að mynda vegna samskiptavanda, uppeldisráðgjafar til foreldra, skilnaðar- og forsjármála, líðan í skóla, vímuefna- og áfengisneyslu ungmenna, barna sem sýna andfélagslega hegðun og geðrænna erfiðleika. Þjónustan er opin öllum fjölskyldum og er þeim að kostnaðarlausu.

Markmið Fjölskyldumiðstöðvar er að bjóða aðgengilega ráðgjöf fyrir fjölskyldur, styrkja bjargráð innan þeirra og veita markvissa leiðsögn um úrbætur. Hugmyndafræði Fjölskyldumiðstöðvar er í anda forvarna og leggur hún fjölskyldum lið við að leysa vanda sem fyrst, meðan þær búa yfir styrk og von til að gera það af eigin rammleik svo að koma megi í veg fyrir að mál þróist á verri veg.“

Ég verð því að spyrja ráðherra hvers vegna fjármagn var ekki veitt til að halda áfram starfi Fjölskyldumiðstöðvar Rauða krossins í Reykjavík. Henni hefur nú verið lokað eftir 20 ára starf þar sem ekki tókst að tryggja stuðning frá hinu opinbera eða nánar tiltekið ráðuneyti ráðherra. Hvaða úrræði standa nú til boða þeim 484 fjölskyldum sem sóttu stuðning þangað áður eins og kemur fram í ársskýrslu Rauða krossins árið 2016?