148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

stuðningur við Samtök umgengnisforeldra.

224. mál
[18:13]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Þetta er dálítið áhugavert mál þar sem hæstv. ráðherra taldi upp ýmsa aðila sem kæmu að þessari þjónustu á einhvern hátt. En þetta eru flestir opinberir aðilar, eins og t.d. sýslumaður. Þarna vantar umgengnisforeldra aðstoð við beiðnir og kærur til sýslumanns. Ekki getur sýslumaður hjálpað þar.

Ég velti því fyrir mér hvaða aðstoð umgengnisforeldrar fá í samskiptum við hið opinbera, það væri þá beggja vegna borðsins. Er einhver umboðsmaður þar sem getur unnið það starf, eða hvernig lítur það út?

Mál sem ég fylgdi aðeins eftir í fjárlaganefnd varðaði styrki sem ÍSÍ veitti. Þetta er dálítið svipað mál, finnst mér. Við komumst að þeirri niðurstöðu að ÍSÍ bæri að útskýra hvernig þau úthlutuðu eða úthlutuðu ekki styrkjum til hinna og þessara sambanda. Spurningin hér er í rauninni sú sama, nema núna er það náttúrlega ráðherra sem á að svara. Upplýsingalagalega séð ætti hann að útskýra og rökstyðja hvers vegna ekki var veitt fjármagn til þessara samtaka, en ég missti aðeins af því í svari ráðherra áðan, ég heyrði það ekki greinilega.

Af hverju var samtökunum ekki veitt fjármagn? Hvaða aðilar koma þar inn í staðinn af þeim lista yfir samtök sem veittir voru styrkir? Ég veit það ekki, þess vegna spyr ég.