148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

minnkun plastpokanotkunar.

271. mál
[18:18]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Þann 1. júlí 2015 var samþykkt þingsályktun um að draga úr plastpokanotkun. Ályktunin er svona:

„Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að finna leiðir til að minnka plastpokanotkun hér á landi. Við val á leiðum til þess verði litið til annarra ríkja í Evrópu þar sem markvisst hefur verið dregið úr plastpokanotkun. Aðgerðaáætlun verði birt fyrir 1. nóvember 2015.“

Síðan gerðist það að settur var saman starfshópur en það var ekki fyrr en í byrjun árs 2016. Síðan birtist áætlunin. Hún byrjar í júlí 2016, ári eftir að tillagan var samþykkt, með því að það átti að taka saman tölur frá Úrvinnslusjóði um notkun einnota plastpoka á Íslandi.

Síðan er áætlunin, ef við skoðum hana, fyrir árið 2016–2018. Það á voðalega mikið að skoða og draga saman upplýsingar. Það er ágætt og mikilvægt að hafa þær í lagi. En í nóvember 2016 átti að vera komið frumvarp til laga um breytingu á lögum um úrvinnslugjald, um einnota burðarplastpoka, og það átti að leggja það fram á Alþingi. Síðan endar áætlunin á öðru frumvarpi sem á að koma 2018, frumvarpi til laga sem kveður á um að óheimilt verði að afhenda burðarpoka án endurgjalds og að gjaldið verði sýnilegt á kassakvittun. Það á að taka gildi 1. janúar 2019.

Mér finnst þetta vera svolítið máttlaust. Kannski hefðum við sem stóðum að þingsályktunartillögunni á sínum tíma átt að vera ákveðnari í því að banna ætti plastpokanotkun hér á landi. Því það er það sem þarf að gera. Áætlunin hefði átt að enda á því að við leiddum í lög bann við plastpokanotkun á Íslandi. Það hefur verið gert víða um heim með góðum árangri. Við vitum að plastumbúðir, eins og plastpokar, hafa skaðleg áhrif á umhverfið. Auðvitað getum við ekki bannað plast því það er úti um allt. En við getum tekið ákveðin skref. Auðvelt og gott skref væri að banna plastpokanotkun og að verslanir sjái þá til þess að þær rétti ekki plastpoka til viðskiptavina sinna, ekki heldur gegn greiðslu.

Það er þangað sem ég vona að við stefnum. En ég spyr hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra: Hver er staðan á verkefnunum í aðgerðaáætluninni fyrir árin 2016–2018? (Forseti hringir.) Og hvenær er áformað að banna notkun plastpoka á Íslandi?