148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

minnkun plastpokanotkunar.

271. mál
[18:27]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég fagna því að hv. þm. Oddný G. Harðardóttir fylgi eftir plastpokamálinu sem hefur nokkrum sinnum verið rætt á Alþingi. Það er mjög mikilvægt að við tökum ákveðin skref. Þau þurfa að vera stór þegar kemur að plastinu. Ég þakka jafnframt hæstv. ráðherra fyrir að fara í gegnum það sem hefur verið gert.

En það sem mig langar að segja er að við þurfum að gera svo miklu, miklu meira þegar kemur að plastinu. Auðvitað eru einnota plastpokarnir risastórt mál sem við verðum að taka á en við verðum að taka þetta samt líka í stærra samhengi, hugsa um allt hitt einnota plastið sem kemur inn á heimili okkar og allt örplastið. Ég vil brýna hæstv. ráðherra og hvetja í þeim efnum. Mér heyrðist reyndar á svari hans að hann sé alveg með það í sinni vinnu, en þetta er atriði sem verður ekki nógu oft nefnt. Þar tel ég mikilvægt að við horfum ekki bara til þess að við (Forseti hringir.) sem einstaklingar og neytendur hugsum um hvernig við getum minnkað plastið sem við tökum með okkur heim, það verður líka að leggja ábyrgðina á herðar þeim sem selja okkur plastumbúðirnar.