148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

minnkun plastpokanotkunar.

271. mál
[18:28]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda, hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli. Plastið er allt um kring, alls staðar og í öllu. Við höfum tekið lítil skref og höfum náð nokkrum árangri. Ég held að mesta breytingin núna sé að við erum hvert og eitt farin að hugsa út frá okkar eigin lífi. Þannig höfum við mest áhrif. Við þurfum að taka ábyrgðina sjálf.

Það er eitt sem ég hef verið að velta fyrir mér í þessu efni. Fólk er farið að nota miklu meira af fjölnota innkaupapokum, en á mörgum heimilum eru komnir staflar af þeim. Hversu mikil mengun verður til af því? Við þurfum að hugsa um það, við megum ekki fara offari í einhverja aðra átt. Á móti vil ég ekki gera lítið úr þessum áföngum varðandi plastpokana. En það er ágætt og gott að heyra frá ráðherra að verið er að safna saman upplýsingum. En við þurfum að fara að nýta þær og stíga skrefin af alvöru og komast lengra áfram.