148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

minnkun plastpokanotkunar.

271. mál
[18:32]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og hv. þingmönnum að taka þátt í umræðunni. Léttir plastpokar eru að jafnaði bara notaðir einu sinni og það getur tekið 100 ár fyrir þá að eyðast í náttúrunni, þá oft í formi örsmárra plastagna sem geta verið skaðlegar. Plastrusl í hafi getur einnig haft verulegan kostnað í för með sér fyrir útgerðir þegar plastið flækist í veiðarfærum o.s.frv. Einfaldar aðgerðir eins og að banna plastpokanotkun þó að það séu ekki nema bara plastpokarnir sem rétt er yfir borðið eða við kassann í matvöruverslunum, geta haft töluverð áhrif fyrir lífríkið í langan tíma. Hver plastpoki sem fýkur út í veður og vind getur orðið upphafið að einhverju hræðilegu sem við hefðum getað komið í veg fyrir ef við hefðum gripið í taumana í tæka tíð.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hyggist núna leggja fram nýja áætlun til framtíðar þar sem tekið er á þessum málum. Við á Íslandi hljótum að geta tekið á þessum málum eins og önnur lönd og borgir hafa gert. Mér sýnist að hvatning sé ekki nóg. Það er fínt að safna saman upplýsingum, en ég held að löggjafinn þurfi að stíga þarna inn því að þetta er alvarlegt mál, stórt og alvarlegt mál. Við þurfum að fara að taka stór skref hér heima fyrir í þessu máli.

Hér erum við bara að tala um plastpoka, en við getum tekið allar plastumbúðirnar sem við sjáum á hverjum einasta degi. Hvað hendum við miklu af plasti í tunnuna sem eru bara umbúðir og hvað eru það mörg þúsund (Forseti hringir.) tonn af olíu sem fara í að búa til þessar umbúðir?