148. löggjafarþing — 34. fundur,  6. mars 2018.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Nú hefur búnaðarþing verið sett þar sem fulltrúar félagasamtaka bænda hittast og ræða sín á milli um þau mál sem á þeim brenna. Þar var af mörgu að taka í ræðu formanns Bændasamtakanna. Meðal annars gerði hann stöðu sauðfjárbænda að umtalsefni. Formaðurinn benti á að sauðfjárbændur væru fjölmennasta stétt bænda. Sauðfjárbú eru hringinn í kringum landið og eru oft og tíðum afar mikilvægur þáttur í öryggisneti ferðalanga um landið. Það er alltaf ljós á næsta bæ.

Ríkisstjórnin kom með myndarlegt framlag á fjáraukalögum til að koma til móts við vanda sauðfjárbænda, en auðvitað leysir það ekki allan þann vanda sem stéttin stendur frammi fyrir. Það er nauðsynlegt að búa þannig um hnútana að sauðfjárræktin þrífist hér almennilega og það gerir hún ekki við núverandi skilyrði. Nú, þegar löggjafinn horfir til framtíðar, þarf að hafa það á hreinu af hverju við veitum fjármuni til sauðfjárræktar. Er það til að tryggja byggð í landinu? Er það til að jafna kjör bænda við aðrar sambærilegar stéttir? Er það pólitísk ákvörðun um að við viljum framleiða lambakjöt til að vernda ákveðið búsetulandslag og menningu auk búfjárstofnsins?

Þessi markmið kunna öll að vera mikilvæg en það er ekki víst að þau séu samrýmanleg. Og hvað er mikilvægast? Hugsanlega er hægt að reikna út að það sé þjóðhagslega hagkvæmt að flytja inn lambakjöt frá Nýja-Sjálandi, skyr frá Hollandi og mjólk með fraktflugi frá Danmörku. En er það umhverfislega hagkvæmt og skynsamlegt? Það var að heyra á bændum á fundi sem við áttum með þeim í gærkvöldi að þeir væru fúsir til að leggjast á árarnar með okkur í því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. En það er langtímamarkmið, eins og við þekkjum, að Ísland verði kolefnishlutlaust með því að draga úr losun einni saman. Þess vegna þarf að ræða við vörslumenn landsins, bændur, hvernig haga skuli bindingu kolefnis, með trjám, með því að græða upp eyðimerkur þessa lands og fylla upp í skurði sem ekki eru nýttir í landbúnaðarframleiðslu, eða hvað annað. Samtalið ber að taka á forsendum beggja aðila.