148. löggjafarþing — 35. fundur,  6. mars 2018.

vantraust á dómsmálaráðherra.

344. mál
[16:53]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ástæða þess að við ræðum þessa tillögu um vantraust á hæstv. dómsmálaráðherra er sú tillaga sem samþykkt var af meiri hluta Alþingis sl. vor um 15 dómara við nýjan Landsrétt. Tillaga ráðherra var ekki í samræmi við tillögu dómnefndar sem mat 15 umsækjendur hæfasta, skilaði áliti þar að lútandi til ráðherra, en í tillögu sinni nýtti ráðherra sér þá heimild sem er í lögum um að heimilt sé að víkja frá áliti dómnefndar svo fremi sem meiri hluti Alþingis samþykki tillöguna.

Þá þegar var bent á það við afgreiðslu málsins að þessi heimild undanskildi ráðherra ekki frá þeirri meginreglu stjórnsýsluréttar sem fjallað hefur verið um í dómum og álitum umboðsmanns Alþingis og byggt hefur verið á hér á landi í langan tíma, að skipa skuli þann hæfasta sem völ er á úr hópi umsækjenda. Sú regla tryggir almannahagsmuni og uppfyllir jafnræðisreglu stjórnarskrár. Bent var á að fyrir þyrfti að liggja fullnægjandi rökstuðningur.

Þetta kom fram í áliti minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem ég sjálf mælti fyrir sl. vor en eigi að síður varð niðurstaða meiri hluta Alþingis þá að styðja tillögu hæstv. ráðherra. Mál þetta fór í kjölfarið fyrir héraðsdóm og svo Hæstarétt og dómur Hæstaréttar staðfestir það sem fram kom í þessu nefndaráliti, þ.e. niðurstaða réttarins var að rannsókn ráðherra væri ófullnægjandi og í andstöðu við 10. gr. stjórnsýslulaga. Hins vegar er alltaf matskennt, eins og hefur komið fram við meðferð þessa máls, hve ítarleg slík rannsókn á að vera. Það er eðli þessa regluverks að þarna þarf alltaf að liggja fyrir mat.

Það hefur komið fram í máli mínu eftir dóm héraðsdóms og dóm Hæstaréttar að ég tek þessa niðurstöðu alvarlega og ég tel fulla ástæðu til að endurskoða gildandi lagaumgjörð um skipan dómara með hliðsjón af þeim dómafordæmum sem liggja fyrir. Það mikilvægasta sem við getum gert er að læra af slíkum dómum, enda er niðurstaðan í takt við það nefndarálit sem ég vísaði til áðan. Ég krafðist ekki afsagnar dómsmálaráðherra þótt ég væri þá í stjórnarandstöðu. Sú afstaða hefur ekki breyst. Allt þetta sem hér hefur verið rætt lá nefnilega fyrir á síðasta kjörtímabili, í tíð síðustu ríkisstjórnar, öllum þingmönnum þá mátti vera ljóst hvaða vafi ríkti um málið. Bent var á nauðsyn þess að skoða sérstaklega hvort rannsóknarreglu stjórnsýslulaga hefði verði fylgt. Það var spurt um þá ráðgjöf sem hæstv. ráðherra hefði sótt sér. Það gerði ég sjálf á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Það kom fram hjá hæstv. ráðherra að hún vísaði til eigin mats eins og hún hefur gert síðan þannig að þetta eru ekki nýjar upplýsingar í málinu.

Þetta lá ljóst fyrir en samt var það niðurstaða þáverandi meiri hluta að styðja tillögu hæstv. ráðherra. Héraðsdómur hafði fellt sinn dóm fyrir síðustu kosningar þannig að staðreyndir málsins lágu líka ljósar fyrir og þó að hæstaréttardómur félli síðar og væri að einhverju leyti ólíkur héraðsdómi, að því leyti að Hæstiréttur teldi enga annmarka á áliti dómnefndar sem héraðsdómur hins vegar gerði athugasemdir við, lágu þessar stóru línur í málinu algjörlega ljósar fyrir og það var því með opin augu — af því að hér hefur talsvert verið rætt um afstöðu þingmanna Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs — algjörlega opin augu sem við ákváðum að ganga til þessa ríkisstjórnarsamstarfs. Við erum algjörlega með opin augu í því enn þá.

Það sem hefur gerst nýtt í þessu máli er að umboðsmaður Alþingis hefur ákveðið að taka það ekki til sérstakrar skoðunar en hann hefur hins vegar boðað frumkvæðisathugun á því mati sem fer fram á hæfi umsækjenda um opinberar stöður. Ég fagna þeirri athugun og tel fulla ástæðu til að fara yfir þau mál sem sömuleiðis var vísað til í þeim héraðsdómi sem ég nefndi áðan.

Áður hefur komið fram að gerð hefur verið krafa um að einn þeirra dómara sem ekki voru hluti af tillögu dómnefndar viki sæti við meðferð máls í Landsrétti sökum vanhæfis. Landsréttur hefur þegar úrskurðað í málinu og hafnað því að dómarinn víki sæti. Því máli hefur verið skotið til Hæstaréttar. Það mál er því til meðferðar í dómskerfinu. Mér hefur þótt það sérkennilegt og í raun andstætt grundvallarreglum stjórnarskrárinnar um þrískiptingu ríkisvaldsins að kalla eftir því, eins og einhverjir hv. þingmenn gerðu hér í gær, að framkvæmdarvaldið stæði að einhvers konar inngripi í dómsvaldið. Ég veit hreinlega ekki hvað er verið að leggja til, að Landsréttur verði endurskipaður í heild sinni?

Enn furðulegra er að telja að afsögn hæstv. dómsmálaráðherra eyði réttaróvissu í því máli. Henni verður eingöngu eytt með því að dómstólar ljúki sinni málsmeðferð. Þar verður dómsvaldið að eiga síðasta orðið og ég heyrði ekki betur, eða las raunar ekki betur á veraldarvefnum en að formaður Samfylkingarinnar væri mér sammála um að réttaróvissu yrði ekki eytt þrátt fyrir að hæstv. dómsmálaráðherra viki sæti. Ég fæ satt að segja ekki séð, herra forseti, að rökin með þessari vantrauststillögu séu fullnægjandi. Hér ætla hv. þingmenn að hlusta á umræðu og taka afstöðu út frá henni. Þar með er ég ekki að draga úr alvarleika dóms Hæstaréttar eða því að vönduð vinnubrögð séu viðhöfð í stjórnsýslunni. Ég tel hins vegar að þessi tillaga þjóni ekki slíkum markmiðum og ég mun því greiða atkvæði gegn henni.