148. löggjafarþing — 35. fundur,  6. mars 2018.

vantraust á dómsmálaráðherra.

344. mál
[17:10]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég held að þetta mál snúist um traust, traust þjóðarinnar á dómstólum, traust þjóðarinnar á Landsrétti, traust þjóðarinnar á dómsmálaráðherra. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að dómsmálaráðherra hefði brotið gegn stjórnsýslulögum með skipan 15 dómara í Landsrétt. Ríkið var dæmt til að greiða miskabætur til tveggja umsækjanda og því nýtur ráðherra ekki trausts. Ráðherra gerðist brotleg við stjórnsýslulög og var dæmd tvívegis í Hæstarétti og hefur ekki tekið ábyrgð á þeim dómum.

Ég tel að dómsmálaráðherra hefði átt að óska eftir nýju áliti dómnefndar um hæfi umsækjenda um dómarastöður, þ.e. ef hún taldi eitthvað rangt í áliti dómnefndarinnar. Í dómnum segir ráðherra, með leyfi forseta:

„… ráðherra bar eftir sem áður stjórnskipulega ábyrgð á skipun dómara við Landsrétt […] og var við hana bundin af almennum reglum stjórnsýsluréttarins, bæði hvað varðar meðferð málsins sem og þá efnislegu ákvörðun sem ráðherra tók þegar hún lagði til við Alþingi að tilteknir einstaklingar yrðu skipaðir í embætti dómara.“

Í því sambandi er undarlegt að dómnefndin ráði allri skipan Landsrétt en ráðherra beri alla ábyrgð á þeim sem hún skipar.

Þetta mál er allt ótrúlegt og verður að taka það allt til endurskoðunar til þess að sátt og traust verði um skipan dómara. Ekki verður því fullyrt að ráðherra hafi valið 15 hæfustu einstaklingana í Landsrétt, hvað þá dómnefndin.

Í dómi héraðsdóms Reykjavíkur segir að stjórnsýslumeðferð ráðherra hafi ekki verið í samræmi við ákvæði laga nr. 50/2016, sem og skráðar og óskráðar reglur stjórnsýsluréttarins um rannsókn máls og þá einnig um mat á hæfi umsækjenda og innbyrðis samanburð á þeim. Þannig að þetta er stórfurðulegt mál og þarf taka það til endurskoðunar.