148. löggjafarþing — 35. fundur,  6. mars 2018.

vantraust á dómsmálaráðherra.

344. mál
[18:40]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Mig langar bara að byrja á að segja að það er fullt af góðum ráðherrum í þessari ríkisstjórn. Þessi ríkisstjórn getur alveg gert fullt af góðum hlutum og hefur farið vel af stað, heilbrigðisráðherra, menntamálaráðherra, forsætisráðherra með margt gott, fjármálaráðherra — þar er margt gott líka en kannski eru sum atriði vafasöm samt sem áður sem þarf að skoða líka. Þessi ríkisstjórn getur gert fullt af góðum hlutum. Hún er íhaldssöm og það verða kannski ekki miklar breytingar á hlutunum, nema vonandi í heilbrigðismálum ef við fáum heilbrigðisstefnu.

Það er margt gott sem þessi ríkisstjórn hefur farið af stað með og gæti gert. Þess vegna er svo sorglegt að vera með ráðherra dómsmála sem hefur svikið alla í ferlinu við skipun í Landsrétt. Horfið á að það voru Sjálfstæðismenn sem fóru m.a. af stað með það að búa til Landsrétt til að styrkja réttarkerfið. Ráðherrar þeirra, þingmenn og þeir sem voru skipaðir í stjórnsýslunni unnu faglegt starf við að koma þessu af stað og í lög. Á síðustu metrunum var það skemmt vegna þess að nú er réttaróvissa um hvort þessir dómarar séu vilhallir ráðherra.

Ráðherra brýtur lög með þessu (Forseti hringir.) og af minna tilefni gæti Mannréttindadómstóllinn dæmt alla dóma dómstólsins ómerka. Þetta er það sorglega í stöðunni og ráðherra hefði að sjálfsögðu átt fyrir löngu að vera búinn að segja af sér til þess að við öll í samfélaginu getum farið að starfa að einhverju uppbyggilegu.