148. löggjafarþing — 35. fundur,  6. mars 2018.

vantraust á dómsmálaráðherra.

344. mál
[19:10]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Herra forseti. Í stað þess að gleðjast yfir þeim tímamótum í íslenskri réttarsögu er varða skipan 15 nýrra dómara við glænýtt dómstig hafa þau tímamót verið sveipuð tortryggni og vantrausti. Við þau sögulegu tímamót ákvað ráðherra dómsmála, ein og óstudd, að veita skipun nýrra dómara í farveg tortryggni og vantrausts. Það blasir við öllum, líka æðsta dómstigi Íslands, Hæstarétti, sem staðfesti það með skýrum dómi sínum um skipunina í desember.

Traust á stjórnvöldum er ekki áunnið með að stofna starfshópa. Traust stjórnvalda er áunnið með sanngirni og virðingu og heiðarlegum vinnubrögðum, ekki vinnubrögðum sem veikja dómskerfið eða réttarkerfið í heild sinni eða vekja athygli á alþjóðavísu ef það kostar okkur formúur úr sameiginlegum sjóðum okkar. Traust verður að vinnast af verkum en ekki slælegum embættisverkum sem enginn ber pólitíska ábyrgð á.

Hér verður ráðherra dómsmála í landinu að bera pólitíska ábyrgð á embættisverkum sínum. Hún hefur ekki gert það þrátt fyrir að hún þurfi að fylgja meginreglum í íslenskum stjórnsýslulögum eins og aðrir ráðherrar. Þess vegna styð ég þessa vantrauststillögu því að ég vil ekki fúin og trénuð vinnubrögð. Ég vil ný vinnubrögð.