148. löggjafarþing — 35. fundur,  6. mars 2018.

vantraust á dómsmálaráðherra.

344. mál
[19:20]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég er á móti þessari ríkisstjórn. Ég er andstæðingur hennar. Hún er verklítil, sem er þó á köflum kostur þegar mál sem lögð eru fram eru að stórum hluta til óþurftar. Þar get ég nefnt að innantómt blaður um bætt vinnubrögð sem viðhaft var í upphafi kjörtímabils hefur engu skilað, afgreiðslu skattamála í fjárlagagerð, sem var ómöguleg í alla staði, Arion banka-málið þar sem menn eru sinnulitlir um stórkostlega hagsmuni ríkisins, og yfirlæti og hroka þegar kemur að umræðu um spítala og staðsetningu hans, sem miklu máli varðar fyrir alla sem að koma.

En í dag erum við ekki að greiða atkvæði um það. Við erum að greiða atkvæði um vantraust á einn tiltekinn ráðherra, varðandi afar matskennt atriði þar sem er tekist á um hvort hún hafi upplýst nægjanlega um tiltekin atriði í ferli málsins. Ég tel mörg mál hafa komið upp á síðustu árum og kjörtímabilum sem kallað gætu á tillögu um vantraust á tiltekna ráðherra, en þetta er ekki eitt af þeim að mínu mati.

En ástæðan fyrir því að ég er ekki á rauða takkanum er sú að ég er andstæðingur þessarar ríkisstjórnar. Hún er vond. Hún er vond fyrir íslenska hagsmuni. Þar af leiðandi eru þeir ráðherrar sem að henni standa hluti af henni. Ég mun því ekki greiða atkvæði í þessari atkvæðagreiðslu.