148. löggjafarþing — 36. fundur,  7. mars 2018.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að fagna að hæstv. heilbrigðisráðherra er hér í salnum. Ég er hérna með ágætismál sem væri jákvætt að hún myndi skoða. Fyrir tæpum sex árum voru samþykkt á Alþingi lög nr. 45/2012, um breytingu á lögum um sjúkratryggingar og lyfjalögum. Lögin lúta m.a. að greiðsluþátttöku í lyfjakostnaði. Þau tóku gildi 1. október 2012 í tíð ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. Markmið laganna var m.a. að draga úr lyfjakostnaði þeirra sem verða mikið veikir á skömmum tíma eins og þeirra sem greinast með krabbamein.

Lögin höfðu hins vegar slæm áhrif fyrir þá sem eru veikir fyrir lífstíð eða langveikir. Fyrir gildistöku laganna voru lyf fyrir sykursjúk börn eins og insúlín gjaldfrjáls. Eftir að lögin tóku gildi þarf að greiða fyrir insúlín. Barnshafandi kona sem greinist með meðgöngusykursýki þarf að taka lyf sem kosta u.þ.b. 16.000 kr. á mánuði. Fjölskylda með langveikt barn sem er með sykursýki þarf að greiða 50.000 kr. á ári fyrir insúlín. Þetta kemur sér sérstaklega illa fyrir efnalitlar fjölskyldur. Dauðsföll hafa átt sér stað erlendis vegna þess að foreldrar hafa ekki haft efni á því að leysa út lyf. Slíkt gæti gerst hér á landi eins og staðan er í dag.

Í stefnuskrá Vinstri grænna segir að hagur þeirra sem minnst hafa og veikast standa verði bættur. Eins og svo oft áður verðum við vitni að því að stjórnmálamenn segja eitt og gera annað. Með þessum lögum gerðu vinstri menn hag þeirra sem minnst hafa og veikast standa verri. Ég vil hvetja hæstv. heilbrigðisráðherra til að leiðrétta þetta ranglæti sem félagar hennar í vinstri stjórninni innleiddu. Insúlín er lífsnauðsynlegt hormón sem á að vera endurgjaldslaust fyrir börn.