148. löggjafarþing — 36. fundur,  7. mars 2018.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Mig langar, eins og fleiri hafa gert hér í dag, einmitt að ræða traust, traust á störf þingsins, tiltrú almennings til þingsins og hvaða ábyrgð og skyldur við berum öll þar. Ég held að það sé ágætt að hafa í huga að við grípum oft til þeirrar umræðu að það sé vantraust á störf okkar þegar slær í brýnu, þegar við tökumst á og þegar mögulega er farið óvarlega með eitthvert orðfæri. Vissulega má vera rétt að þar þurfum við svo sannarlega að gæta okkar, en ég held að það skipti miklu meira máli að hafa alltaf í huga að traust er einmitt áunnið. Almenningur treystir okkur eða vantreystir okkur út frá störfum okkar, hvernig við stöndum okkur í þeirri ábyrgð og þeirri skyldu sem við höfum tekist á hendur sem þingmenn.

Þar skiptir gríðarlega miklu máli að við nálgumst þá ábyrgð og þær skyldur af auðmýkt og virðingu fyrir störfum okkar, fyrir stöðu okkar og hvert fyrir öðru. Það er þar sem við vinnum virðingu þingsins mest gagn.

Við eigum ekki að gera lítið úr sjónarmiðum hvers annars þó að við tökumst harkalega á. Við eigum að fara í málefnið en ekki manninn en við eigum auðvitað líka að sýna í verkum okkar að við látum hagsmuni almennings ráða för þegar við tökumst hér á, að við séum óhrædd við að taka á alvarlegum álitaefnum og þó að skoðanir séu mjög skiptar sýnum við það einatt í verki að það séu almannahagsmunir en ekki þröngir sérhagsmunir, hvað þá hagsmunir okkar sjálfra, sem skipta öllu máli.

Það skiptir miklu máli í þeim málefnum sem við tökumst á um. Það skiptir ekki síður máli í okkar eigin hagsmunum í þinginu þegar við ræðum t.d. starfskjör og þá umgjörð sem við sköpum starfskjörum þingmanna. Ég held að við ættum að hafa (Forseti hringir.) þetta í huga þegar við ræðum um traust á störfum þingsins. Sýnum auðmýkt, sýnum virðingu, látum almannahagsmuni ráða för. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)