148. löggjafarþing — 36. fundur,  7. mars 2018.

störf þingsins.

[15:36]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti vill leyfa sér að þakka ágæta umræðu sem hér hefur orðið um samskipti innan þings og traust sem til þingsins er borið.

Forseti vill segja vegna orðaskipta sem urðu hér fyrr um þingfararkostnað og endurgreiðslu þingfararkostnaðar, um upplýsingagjöf og breytta framkvæmd í þeim efnum sem og um erindi hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar til forsætisnefndar að þau mál öll eru til vinnslu og umfjöllunar á sínum rétta stað í forsætisnefnd sem lögum samkvæmt fer með það hlutverk. Þar og aðeins þar verða þau til lykta leidd og þar og aðeins þar verða ákvarðanir um slíka hluti teknar. Hið óvenjulega er að vegna eðlis máls og sérstakra aðstæðna og tengt umræðum undanfarna daga og vikur hefur forsætisnefnd samþykkt að gera gögn málsins, vinnugögn sín í máli sem enn er til umfjöllunar, opinber. Og þau eru núna öllum hv. alþingismönnum sem og fjölmiðlum aðgengileg á vef Alþingis. Forseti vísar mönnum á að kynna sér það sem gert var hér að umræðuefni fyrr í umræðunni ef þeir svo kjósa.