148. löggjafarþing — 36. fundur,  7. mars 2018.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um Sjúkratryggingar Íslands sem kaupanda heilbrigðisþjónustu, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherrra.

[16:04]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég fagna þessari skýrslu. Hún er mjög mikilvæg, ekki síst í ljósi þess að Sjúkratryggingar Íslands eru mjög stór liður á fjárlögum og í útgjöldum ríkisins. Þess vegna er afar mikilvægt að þar ríki aðhald og skilvirkni en jafnframt er þessi skýrsla áfellisdómur yfir störfum þessarar mikilvægu stofnunar.

Þá spyr maður sig: Hver ber ábyrgðina? Ætlar einhver að axla hana?

Það eru svona 12 atriði sem ég vil nefna hér sem mér finnst mikilvægust og mig langar að tíunda hér. Sum þeirra eru orðrétt upp úr skýrslunni en eins og hefur komið hér fram hefur heilbrigðisráðherra ekki mótað þessa heildstæðu stefnu og hæstv. ráðherra bíður þetta mikilvæga og stóra verkefni. Stjórn stofnunarinnar hefur heldur ekki mótað langtímastefnu fyrir stofnunina eins og henni ber samkvæmt lögum um Sjúkratryggingar. Það er mikilvægt að hafa það í huga.

Kaup og samningar stofnunarinnar hafa að miklu leyti ráðist af áherslum fjárlaga, tímabundnum átaksverkefnum og úrlausn tilfallandi vandamála hverju sinni. Slíkar ráðstafanir stuðla ekki að hagkvæmni og skilvirkni til lengri tíma. Við slík skilyrði hafa samningar Sjúkratrygginga í raun og veru verið stefnumótandi fyrir þróun og gerð heilbrigðiskerfisins og það er náttúrlega slæmt. Úttekt Ríkisendurskoðunar leiddi í ljós vissa togstreitu, eins og komið hefur fram, milli lykilstofnana í heilbrigðiskerfinu, þ.e. Sjúkratrygginga Íslands, embættis landlæknis og Landspítala. Að mati Ríkisendurskoðunar stafar sú togstreita að hluta til af óljósri stefnu stjórnvalda og skipulagi heilbrigðisþjónustunnar. Hér er ýmislegt tíundað um stefnumörkun en dæmi eru um að ráðuneytið hafi gert samninga án aðkomu stofnunarinnar eða hafi einhliða ákvarðað forsendur samninga líkt og í tilfelli rammasamnings um lækningar utan sjúkrahúsa.

Þá eru dæmi um að ráðuneytið hafi falið stofnuninni að kaupa þjónustu sem uppfyllir ekki þær faglegu kröfur sem lög um sjúkratryggingar kveða á um, samanber samning um meðferðarþjónustu í Krýsuvík. Krýsuvík er sorglegt dæmi sem við höfum nú fengið fréttir af í fjölmiðlum og afar mikilvægt að við lærum af, stofnunin ekki síst.

Svo eru dæmi um að kaup á þjónustu hafa ekki stuðst við fullnægjandi greiningu á þörfum sjúkratryggðra, kostnaði og ábata. Þetta er mjög ámælisvert, og mikilvægt að úr þessu verði bætt. Þá hafa verið gerðir samningar um kaup á heilbrigðisþjónustu sem eru ekki í fullu samræmi við ákvæði laga um sjúkratryggingar um skilgreint magn, skýr gæði eða jafnt aðgengi landsmanna. Í því tilliti má horfa til rammasamnings Sjúkratrygginga Íslands um annars vegar sjúkraþjálfun og hins vegar lækningar utan sjúkrahúsa.

Einnig hjó ég eftir því að Ríkisendurskoðun telur óvíst að markviss kaup á heilbrigðisþjónustu séu möguleg innan víðtækra rammasamninga og hvetur stofnunina til að meta kosti þess að semja um þjónustu einstakra sérgreina á grunni viðhlítandi greininga. Þetta er athyglisverður punktur.

Samkvæmt greiningu embættis landlæknis eru vísbendingar um að sú heilbrigðisþjónusta sem er veitt samkvæmt rammasamningi Sjúkratrygginga Íslands um lækningar utan sjúkrahúsa sé ekki í samræmi við eðlilega þjónustuþörf, þ.e. að í einhverjum tilvikum gæti verið um óeðlilega mikla notkun á þjónustu að ræða.

Allt eru þetta mjög athyglisverð tilmæli og ábendingar sem við verðum að taka alvarlega.

Það kemur einnig fram að skerpa þurfi á ábyrgð á skilum velferðarráðuneytisins og Sjúkratrygginga. Svo er einn punktur enn sem mér finnst athyglisverður, Ríkisendurskoðun hvetur ráðuneytið til að skýra ábyrgðarskil og taka í því sambandi til skoðunar kosti þess að veita stjórn Sjúkratrygginga Íslands aukið hlutverk við stefnumörkun, undirbúning, gerð og eftirlit með samningum stofnunarinnar. Þetta er gagnrýnivert að mínu mati af því að það er hlutverk ráðuneytisins að vinna að stefnumörkuninni, ekki Sjúkratrygginga Íslands. Ég vona að ráðherra taki það til greina sem ég nefni í þessu sambandi. Ég tel þessa ábendingu ekki vera það sem við séum að tala fyrir úr þessum sal.

Að lokum: Hvað ætlum við að gera við skýrsluna? Oft koma ágætar skýrslur fram og svo spyrja menn: Hvað svo? Það er mjög mikið verk að vinna fram undan í þessum málaflokki og mikilvægt að við tökum alla þá þætti sem koma fram í þessari skýrslu alvarlega og förum strax í að vinna að mjög mikilvægum úrbótum í þessum málaflokki.

Eins og ég segi er mikið verk að vinna og ég hvet hæstv. heilbrigðisráðherra til dáða í þessum efnum.