148. löggjafarþing — 36. fundur,  7. mars 2018.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um Sjúkratryggingar Íslands sem kaupanda heilbrigðisþjónustu, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherrra.

[16:42]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér skýrslu Ríkisendurskoðunar. Þetta er að mörgu leyti mjög áhugaverð skýrsla. Ég hef lýst því yfir á opinberum vettvangi fyrir þessa umræðu að í rauninni koma niðurstöður skýrslunnar mér ekki á óvart. Ég lít á það sem meginniðurstöðu skýrslunnar að Sjúkratryggingar Íslands hafi í raun ekki í höndum þau tæki og við skulum segja þá fagþekkingu sem þarf til þess að geta gert þá samninga og rækt það hlutverk sem hún á að hafa. Aukinheldur kemur mjög greinilega í ljós í niðurstöðum skýrslunnar að vegna þess að við höfum í rauninni ekki haft skýra heilbrigðisstefnu býsna lengi í þessu landi er kannski Sjúkratryggingum Íslands gert enn þá erfiðara fyrir að rækja þetta hlutverk sitt.

Aðeins meira um Sjúkratryggingar. Lög um Sjúkratryggingar Íslands nr. 112/2008 útskýra eða skilgreina ágætlega hlutverk Sjúkratrygginga. Ég var á sínum tíma efins um að sá umbúnaður sem sú stofnun fékk í vöggugjöf, skulum við segja, væri nægjanlegur og ég var heldur ekki alveg sannfærður um og er það raunar ekki enn þá að það fyrirkomulag sem við ákváðum þá væri besta leiðin til að tryggja að ríkið eða hið opinbera fengi á hverjum tíma hagstæðustu „viðskipti“ sem hægt væri að fá á heilbrigðisþjónustumarkaði.

Mér hefur alla tíð fundist að andinn á bak við lögin og andinn sem skapaði þessa umræðu og skapaði það að til urðu lög um Sjúkratryggingar Íslands hafi í rauninni svolítið gengið út frá því að heilbrigðisþjónusta væri eins og hver önnur þjónusta, kaupenda- og seljendahlutverk á heilbrigðisþjónustumarkaði væru bara eins og kaupenda- og seljendahlutverk alls staðar annars staðar. Það vitum við að er ekki, ég held að mér sé alveg óhætt að fullyrða það hér í ræðustól. Þetta er ekki hefðbundinn kaupenda- og seljendamarkaður. Það er miklu frekar þannig að seljendur þjónustunnar eru nær alltaf í yfirburðastöðu, annars vegar vegna eðlis „vörunnar“ sem þeir selja og hins vegar vegna þeirrar þekkingar sem þeir búa yfir á vörunni sem kaupandi getur ekki alltaf haft. Til að kaupandinn hafi þessa þekkingu þarf að vera til staðar mjög mikil þekking hjá þeirri stofnun sem á að rækja kaupandahlutverkið, þ.e. hjá Sjúkratryggingum, og það er ekki. Við höfum ekki búið þannig um hnútana.

Skýrslan kemur líka inn á stefnuleysi í heilbrigðismálum. Nú spyr ég hv. þingmenn og hugsið ykkur aðeins um: Hvað eru búnir að vera margir heilbrigðisráðherrar á síðastliðnum tíu árum? Sjö eða átta? Er líklegt þegar skipt er um heilbrigðisráðherra eins oft og gert hefur verið að það komi einhver heildstæð stefna út úr ráðuneytinu? Síðasta heilbrigðisáætlun sem hefur verið samþykkt á þinginu gilti til 2010, hún var reyndar ekki samþykkt fyrr en í maí 2001 en hún gilti til 2010. Ég þekki þá áætlun ágætlega vegna þess að ég var einn af þeim sem lögðu þar hönd á plóg, ég setti inn smávegisefni í þá skýrslu á sínum tíma. Hún var ágæt en auðvitað lá í hlutarins eðli, eða menn bjuggust a.m.k. við því, að önnur áætlun tæki síðan við af þeirri áætlun fyrir næstu tíu ár. Nú erum við langt komin með átta ár af þessum næstu tíu árum frá síðustu áætlun þannig að okkur hefur rekið talsvert af leið.

Það er fagnaðarefni að heyra viðbrögð hæstv. ráðherra við þessari skýrslu. Hún hefur lýst því yfir að hún ætli að taka hana mjög alvarlega. Hún ætlar að nota þessa skýrslu sem tæki til að gera betur, til að sníða almennilega og nýja heilbrigðisstefnu sem tekur á þeim ágöllum sem nefndir eru í skýrslunni.

Því má líka velta fyrir sér, hv. þingmenn, hvort þetta meinta stefnuleysi sem skýrslan bendir á endurspegli ekki ákveðinn vilja til afskiptaleysis af heilbrigðiskerfinu og þar með ákveðinn vilja til að lofa kerfinu að þróast í einhverja tiltekna átt, svolítið „frjálst“.

Ég er a.m.k. þeirrar skoðunar að það sé hlutverk heilbrigðisyfirvalda á hverjum tíma að halda tiltölulega þétt um aktygin þegar við hugsum um það hvert heilbrigðiskerfið á að stefna. Það má kannski segja að skýrslan bendi að þessu leyti á að það hafi í rauninni ekki verið gert í nægilega miklum mæli. Ég vísa aftur til þess sem ég sagði í upphafi, það eru búnir að vera býsna margir heilbrigðisráðherrar. Það hefur kannski ekki alltaf verið skipt um stefnu þegar nýr heilbrigðisráðherra kemur en við vitum að mismunandi aðilar líta hlutina mismunandi augun.

Mig langar að nefna eitt í þessari skýrslu. Það er sérstaklega komið inn á samningagerð við tvær heilbrigðisstofnanir. Það hittist svo skemmtilega á að þær eru báðar í kjördæmi þess sem hér stendur, þ.e. Krýsuvík og Reykjalundur. Það er búið að tala svolítið um Krýsuvík í þessari umræðu þannig að ég ætla að fókusera á Reykjalund.

Ég hef á tilfinningunni að skýrsla Ríkisendurskoðunar leggi nokkuð að jöfnu þá þjónustu sem er veitt á mismunandi heilbrigðisstofnunum sem veita endurhæfingu. En þau okkar sem annaðhvort hafa starfað í þessum geira eða kynnt sér þessi mál vita að þar á er grundvallarmunur. Reykjalundur sem er gagnrýndur nokkuð í skýrslunni er í rauninni algjör lykilstofnun í íslensku heilbrigðiskerfi og er í mörgu tilliti eina stofnunin sem veitir tiltekna þjónustu í endurhæfingu. Það má auðvitað velta fyrir sér hvort ekki væri langeðlilegast að slík stofnun væri alfarið á vegum ríkisins af því að reksturinn er nánast að öllu leyti fjármagnaður með ríkisframlögum. Auðvitað þekkja hv. þingmenn hvernig sjúkrastofnun Sambands íslenskra berklasjúklinga á Reykjalundi fór af stað og alla þá fallegu sögu sem er þar að baki. En í skýrslunni er látið að því liggja að víða annars staðar í kerfinu sé sambærileg þjónusta við þá sem rekin er á Reykjalundi, en svo er ekki.

Ég vil að lokum brýna hæstv. ráðherra til dáða í að nota þessa skýrslu vel, taka úr henni þær góðu ábendingar sem þarna eru, styðja sínar stofnanir í að fylgja þeim eftir og, ef þarf, beita sér í fjárlagagerðinni þegar kemur að næstu fjárlögum til að útvega það fjármagn sem þarf til að rækja hlutverk þessara stofnana sem allra best.