148. löggjafarþing — 36. fundur,  7. mars 2018.

matvæli og dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr.

330. mál
[18:35]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið. Og aldrei þessu vant, þegar hv. þingmaður tekur svona til orða í byrjun ræðu sinnar, þá ætla ég að standa við það. Ég vil eingöngu koma hingað til að hafa sagt það, þegar kemur að því að draga úr tíðni eftirlits, að þetta er mál sem við þurfum að vanda mjög til verka við. Ég efast ekki um að ég og hæstv. ráðherra erum sammála um það mál. Við höfum séð dæmi þess á undanförnum árum hve mikilvægt öflugt matvælaeftirlit getur verið. Öflugt og gott matvælaeftirlit er mikil neytendavörn. Ég vil hvetja okkur í atvinnuveganefnd og brýna, í samráði við ráðuneytið, til að finna þá þetta kerfi og huga vel að því sem hæstv. ráðherra kom inn á. Ég er ekki með þessu að segja að þetta sé ekki endilega leiðin, ef fagaðilar telja að þetta sé betra þá skoðum við það opnum huga. Ég vildi bara draga það fram að öflugt og gott matvælaeftirlit er neytendavernd. Ég held að við hæstv. ráðherra séum ekkert ósammála í þessum efnum, ég vildi bara hafa sagt þetta hér. Þess vegna fór ég ekki í andsvar við hæstv. ráðherra. Ég held að við séum sammála um þetta mál.