148. löggjafarþing — 36. fundur,  7. mars 2018.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 187/2017 um breytingu á XIX. viðauka við EES-samninginn.

335. mál
[18:43]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 187/2017 sem mælir fyrir um að eina tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins á sviði neytendaverndar verði tekin upp í EES-samninginn. Gerðin fjallar um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun. Hún víkkar út gildissvið núgildandi löggjafar er varðar pakkaferðir svo hún nái yfir það sem hægt er að kalla létta ferðapakka annars vegar og mælir fyrir um gagnkvæma viðurkenningu tryggingakerfa hins vegar.

Eldri tilskipun um efnið miðaði að því að auka réttarvernd neytenda sem keyptu svokallaðar alferðir eða pakkaferðir. Með tilkomu internetsins hefur færst í aukana að neytendur setji sjálfir saman eigin ferðir og stundi því viðskipti við marga ólíka aðila. Þannig skipuleggja neytendur sjálfir pakkaferðir sem falla utan gildissviðs þeirrar verndar sem núverandi löggjöf tryggir þeim. Gagnkvæm viðurkenning tryggingakerfa er nýmæli sem kynnt er í tilskipuninni. Þar er gert ráð fyrir að öll aðildarríki ESB/EES verði með gagnkvæmum hætti að viðurkenna tryggingakerfi hvert annars. Bent er á að slík breyting gæti leitt til aukinnar samkeppni á milli aðildarríkja.

Innleiðing þessarar gerðar kallar á breytingar á lögum um alferðir, nr. 80/1994. Ákvörðunin var því tekin með stjórnskipulegum fyrirvara af hálfu Íslands í sameiginlegu EES-nefndinni. Samkvæmt lögum um þingsköp Alþingis ber að aflétta slíkum fyrirvara með þingsályktunartillögu. Því er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst svo að aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.