148. löggjafarþing — 36. fundur,  7. mars 2018.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 107/2017 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

337. mál
[18:48]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 107/2017 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn um umhverfismál og fella inn í samninginn framkvæmdarákvörðun framkvæmdastjórnarinnar um að fastsetja niðurstöðu um bestu fáanlega tækni (BAT) samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/75/ESB, vegna járnlauss málmiðnaðar. Tilskipun 2010/75 fjallar um losun í iðnaði og sameinar sjö eldri gerðir um samþættar mengunarvarnir. Tilskipunin byggir á heildstæðri nálgun þar sem taka skal tillit til umhverfisins í heild, t.d. með því að draga úr losun út í andrúmsloft, vatn og jarðveg við meðhöndlun úrgangs og grípa til nauðsynlegra ráðstafana þegar óhöpp eða slys verða sem hafa umtalsverð áhrif á umhverfið. Markmið hennar er að koma í veg fyrir og takmarka mengun svo sem með því að setja losunarmörk varðandi tiltekin efni. Meðal helstu nýmæla tilskipunarinnar eru ákvarðanir um bestu aðgengilegu tækni (BAT) og gildi þeirra með tilkomu svokallaðra niðurstaðna um bestu aðgengilegu tækni (BAT-ákvarðanir). Nýmælin fela það í sér að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, í samráði við aðildarríki og hagsmunaaðila, setji fram viðmið varðandi tiltekna starfsemi. Þessi viðmið verða sett sem sérstakar gerðir framkvæmdastjórnarinnar, þ.e. BAT-ákvarðanirnar. Fyrrnefnd framkvæmdarákvörðun, sem þingsályktunartillaga þessi leitast við að fá staðfesta af Alþingi, er BAT-ákvörðun. Hún felur í sér að fastsetja niðurstöður um bestu fáanlega tækni fyrir járnlausan málmiðnað.

Á Íslandi falla þrjú álver undir ákvörðunina, eitt eða tvö fyrirtæki sem vinna að endurvinnslu álgjalls og ein verksmiðja sem framleiðir kísiljárn eða svokallað járnblendi. Auk þess falla undir þessa ákvörðun tvær verksmiðjur sem eru í byggingu og fengið hafa starfsleyfi Umhverfisstofnunar til að framleiða hrákísil, og verksmiðja sem sótt hefur um starfsleyfi til slíkrar starfsemi.

Þar sem tilskipunin sem ákvörðunin byggir á kallar á lagabreytingu var umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar tekin með stjórnskipulegum fyrirvara af hálfu Íslands. Samkvæmt lögum um þingsköp Alþingis ber að aflétta slíkum fyrirvara með þingsályktunartillögu. Því er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst svo að aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.