148. löggjafarþing — 37. fundur,  8. mars 2018.

falskar fréttir og þjóðaröryggi.

[10:47]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Hann spyr um hluti sem eru mjög mikilvægir og rakti ágætlega áhyggjur sínar sem ég deili með hv. þingmanni. Það hefur kannski aldrei verið auðveldara en núna að koma svokölluðum fréttum, sem við getum kallað falskar fréttir, í loftið og þær fara oft ansi langt. Þetta er mikið rætt á ýmsum stofnunum sem við eigum aðild að. Ég nefni t.d. Atlantshafsbandalagið, þar eru menn að ræða nákvæmlega þessa þætti.

Fréttirnar eru með ýmsum hætti, m.a. þeim sem hv. þingmaður lýsir hér. Hann vísar til þess þar sem unnið er skipulega að málum en stundum er það ekki svo. Þetta er vandmeðfarið þegar við tökum þátt í umræðu en hins vegar á það að vera tiltölulega einfalt — það er það sem við höfum gert og til þess er utanríkisþjónustan búin að vinna að því í ýmsum málum að í það minnsta koma fram með leiðréttingar þegar um hreinar staðreyndavillur er að ræða.

Við höfum ekki orðið vör við að við höfum lent í þessu, eins og nágrannaríki okkar sem hv. þingmaður vísar til, en það þýðir ekki að við eigum ekki að halda vöku okkar. Það gerum við, ekki bara í ráðuneytinu heldur sömuleiðis með sendiskrifstofum okkar. Spurning hv. þingmanns er góð brýning og mikilvægt hjá hv. þingmanni og okkur öllum að vera meðvituð um þá stöðu sem er uppi í alþjóðasamfélaginu.

Stutta svarið við spurningunni er sú að við erum meðvituð um þetta og að við höldum vöku okkar. Þetta er eilífðarbarátta og nokkuð sem við getum ekki slakað neitt á með.