148. löggjafarþing — 37. fundur,  8. mars 2018.

trúnaðarupplýsingar.

[11:07]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Örstutt. Í morgun var kynningarfundur um verkefnisstjórn um landsáætlun um uppbyggingu innviða. Þar fengum við í umhverfis- og samgöngunefnd glærupakka sem var ansi góður og mjög gaman að fara yfir hann, en tveimur klukkutímum seinna fengum við tölvupóst um að þessi glærupakki innihéldi trúnaðarupplýsingar. Við fengum ekki að vita það þegar við fengum gögnin í hendurnar og því velti ég fyrir mér: Er ég með trúnaðarupplýsingar eða ekki? Þessi pakki sem ég fékk í hendurnar er ekki merktur trúnaðargögn.

Ég veit ekki hvað ég á þá að gera við þennan tölvupóst, hvaða mark ég á að taka á því hvort ég sé með trúnaðargögn undir höndum eða ekki. Ég hefði getað beðið um gögnin án trúnaðarupplýsinganna. Það er ekkert mál, það er bara sagt að krónutölurnar varði við trúnað þannig að ég leita til forseta um ráðleggingar hvað það varðar.