148. löggjafarþing — 38. fundur,  8. mars 2018.

vextir og verðtrygging.

246. mál
[12:51]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er gríðarlega mikilvægt að við ræðum einmitt líka þá þróun sem orðið hefur frá því að hin svokölluðu Ólafslög voru sett, hvernig fjármálamarkaðir og annað hefur þróast. Gleymum því ekki að um tíma voru laun líka vísitölutengd sem síðan var kippt úr sambandi. Það sem um er að ræða hér er að í rauninni er ekki verið að leggja niður neinar vísitölutengingar, það er verið að leggja til að vísitöluútreikningum sé breytt, þ.e. að fasteignin fari út en áfram sé samt ákveðinn rekstrarkostnaður og slíkt við húsnæðið sem sé inni í vísitölunni.

Nú veit ég ekki hvort hv. þingmaður getur munað það með mér ef horft er yfir ákveðið tímabil — ég man ekki alveg hvað tímabil en ef við horfum svolítið aftur á bak í tíma og vísitalan er reiknuð með sama hætti og gert er víða í Evrópu, í Danmörku svo dæmi sé tekið, var í rauninni verðhjöðnun þegar kom að þróun vísitölu á markaði. Það er neikvætt. Mig minnir endilega að ég hafi séð einhverjar tölur um þetta og útreikninga hjá hv. flutningsmanni þessarar tillögu ekki alls fyrir löngu. Það er sláandi hversu mikil áhrif þetta hefur inn í okkar samfélag, á útreikninga og þá jafnframt stöðu heimilanna.

Einhvern veginn finnst mér eins og að í dag hafi þeir hv. þingmenn sem hér hafa talað í ræðu lýst frekar sjúku kerfi, kerfi sem heimilin standa undir meðan þeir sem veita fólkinu fyrirgreiðsluna sitja og fitna án þess að hafa nokkurn skapaðan hlut fyrir málunum.