148. löggjafarþing — 38. fundur,  8. mars 2018.

Arion banki.

[13:31]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegur forseti. Árið 2013 hófst vinna við umfangsmiklar aðgerðir í efnahagsmálum, aðgerðir sem aldrei höfðu verið reyndar áður og voru fyrir vikið umdeildar. Málið snerist líka um gríðarlega hagsmuni ríkisins annars vegar og hins vegar um aðila sem stefndu á að hagnast gríðarlega á bankahruninu, aðila sem þekktir eru fyrir að ganga hart fram við að hámarka ávinning sinn. Þessu fylgdu mikil átök en stjórnvöld brugðust við með því að sýna pólitíska festu.

Aðgerðirnar snerust ekki hvað síst um að snúa við dæminu frá 2009–2010 þegar bankakerfi landsins var afhent vogunarsjóðum. Þegar áformunum var hrint í framkvæmd 2015 var útlistað hvernig þau ættu að ganga fyrir sig skref fyrir skref. Þetta var heildarplan. Verkefnið heppnaðist vel, svo vel að það stuðlaði að meiri og hraðari efnahagslegum viðsnúningi en dæmi eru um annars staðar.

En um mitt ár 2016 kom hökt í framkvæmdina. Gjaldeyrisútboðum sem áttu að leysa snjóhengjuvandann svokallaða var ítrekað frestað og breytt, m.a. að kröfu vogunarsjóða. Af því hlaust skaði sem nemur tugum milljarða. Í upphafi árs 2017 kom svo í ljós að algjör U-beygja hafði verið tekin í málinu. Ráðherrar sendu frá sér tilkynningu til að fagna því að vogunarsjóðir hefðu selt sjálfum sér stóran hluta í Arion banka, banka sem var óbeint í eigu ríkisins, og farið með því á svig við markmið stöðugleikaskilyrðanna, aðilar sem teljast ekki einu sinni hæfir eigendur fjármálafyrirtækja og starfa á undanþágu.

Vinstri stjórnin afhenti vogunarsjóðum bankana, stjórnin sem tók við endurheimti þá vegna almannahagsmuna, en nú hefur dæmið snúist við aftur. Nú þegar vogunarsjóðirnir draga svo upp samkomulag frá fyrsta ári vinstri stjórnarinnar, samkomulag sem þeir höfðu ekki staðið við, hvert er þá svar stjórnvalda? Gaman að sjá ykkur, velkomnir aftur til 2009. Ríkisstjórnin hefur ekki einu sinni haft fyrir því að ná yfirsýn yfir málefni Arion banka. Fyrir vikið hafa ráðherrar ítrekað farið með rangt mál í ræðustól Alþingis og m.a. fullyrt að ríkið ætti ekki forkaupsrétt í bankanum, ólíkt því sem nú hefur verið staðfest.

Þótt málefni fjármálakerfisins séu búin að vera stærsta viðfangsefni stjórnmálanna í áratug er ríkisstjórnin algjörlega stefnulaus í málaflokknum. Það á víst að skrifa hvítbók. Hún á að birtast einhvern tímann seinna og þá á að byrja að spá í málið. Yfirleitt er hvítbók skrifuð í nafni ráðherra en nú á hópur fólks að vinna að því á kvöldin og um helgar að undirbúa að stjórnin geti byrjað að móta sér stefnu. Á meðan taka vogunarsjóðirnir völdin með velþóknun og jafnvel hjálp stjórnvalda.

Ríkisstjórnin kemur af fjöllum. Hún hefur ekki hugmynd um hvers vegna ríkið þurfti að veita leyfi fyrir sölu Arion banka og hún hafði ekki hugmynd um forkaupsrétt ríkisins. En þegar kemur að kröfum vogunarsjóðanna hamra stjórnvöld á því að hann sé einhliða, ótvíræður og fortakslaus. Sjóðirnir hefðu hins vegar aldrei ákveðið að láta bankann sem ríkið átti óbeint kaupa fyrir sig 13% hlutinn sem ríkið átti beint nema vegna þess að stjórnvöld voru búin að gefa allt hitt eftir og missa tökin á atburðarásinni. Nokkrum dögum, jafnvel nokkrum klukkutímum, eftir að ríkisstjórnin batt rauða slaufu utan um 13% hlut ríkisins í bankanum og afhenti vogunarsjóðunum upplýstu ráðgjafar þeirra að hægt væri að greiða um 80 milljarða út úr bankanum í arð og um leið var staðfest að dótturfélög bankans væru mun meira virði en gert var ráð fyrir. Nú má gera ráð fyrir að arður verði greiddur út, dótturfélög seld og bankinn skráður á markað í haust. Á meðan bíður ríkisstjórnin eftir hvítbókinni.

Það getur tekið mörg ár að koma á eðlilegu eignarhaldi Arion banka í stað sjóðanna sem eru þar á undanþágu. Eitt það sérkennilegasta sem hæstv. forsætisráðherra hefur sagt um mál Arion banka er að sjóðirnir hafi getað selt sér bankann vegna þess að það hafi verið gluggi í stöðugleikaskilyrðunum. Það er ekki rétt. Það var enginn gluggi, en það voru dyr. En dyrnar voru læstar. Það hefði verið hægt að opna þær, t.d. ef bankinn væri seldur til erlends viðskiptabanka sem væri til þess fallinn að bæta bankakerfið. Ríkisstjórnin afhenti hins vegar vogunarsjóðunum lyklana. Þeir gengu í bæinn og vísuðu ríkisstjórninni út í kuldann og þar stendur hún nú stefnulaus og bíður eftir hvítbókinni