148. löggjafarþing — 38. fundur,  8. mars 2018.

vextir og verðtrygging.

246. mál
[15:12]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Við erum sammála, ég og hv. þingmaður, um að boð og bönn séu sjaldnast af hinu góða. Það er því miður þannig að jafnvel þegar löggjafinn reynir með góðum ásetningi að grípa inn í markaði með einhvers konar bönnum hefur það oft mjög óæskilegar hliðarafleiðingar. Við þekkjum það, og hv. þingmaður þekkir enn betur en ég sögu einhvers konar hámarksvaxta og í hvaða umhverfi það skapaðist, annars vegar í neikvæðum raunvöxtum sparifjáreiganda um langt árabil, verulegum skorti á fjármagni og hins vegar þeim forréttindum eða klíkuskap sem varð til í kringum það að ná aðgengi að fjármagni með þeim leiðum.

Það væri náttúrlega draumur ef hægt væri að setja hámark á verðbólguna, sem er rótin að þessu öllu. En þar er þetta óstöðuga efnahagsumhverfi okkar enn og aftur rót vandans. (Gripið fram í.)