148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

áherslur í heilbrigðismálum.

[15:19]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætla að eiga orðastað við ráðherra um samskipti. Það er þekkt að á ákveðnum þroskaskeiðum reyna börn á mörk gagnvart foreldrum, nota fagurgala, hótanir, tár, allt eftir tilefni og þá reynir á að foreldrarnir sýni mildilega staðfestu og dragi línur við það sem barninu, heimilislífinu og umhverfinu er best hverju sinni.

Nú er Sjálfstæðisflokkur farinn að haga sér svolítið eins og barn gagnvart Vinstri grænum. Í stað þess að skipta út trausti rúnum dómsmálaráðherra neyðir hann Vinstri græn til að éta ofan í sig fyrri afstöðu flokksins til ráðherrans, annars sé heil ríkisstjórn í uppnámi. Hann komst upp með þetta og mun ganga á lagið. Fjölmargt bendir til þess, ekki síst ný landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins. Í ályktun flokksins segir m.a., með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að horfa til fjölbreyttra rekstrarforma í heilbrigðisþjónustu með það að markmiði að auka aðgengi, þjónustu, skilvirkni og hagkvæmni með áherslu á skýrar gæðakröfur. Gera þarf heilbrigðisstéttum kleift að stunda sjálfstæðan rekstur.“

Hæstv. ráðherra tók stórt upp í sig í stefnuræðu forsætisráðherra, með leyfi forseta:

„Við erum að bjarga heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og samgöngunum frá langvinnri vanrækslu og ásælni peningaaflanna í landinu.“

Miðað við ýmis ummæli þingmanna VG er nokkuð ljóst að flokkarnir tveir hafa mjög ólíka sýn á þennan björgunarleiðangur. Þess vegna spyr ég ráðherra: Telur hún að ólík sýn eigi eftir að gera henni erfitt fyrir í þeirri endurskipulagningu sem bíður og báðir flokkar hafa talað um?

Í öðru lagi: Getur hún staðfest að hér verði ekki lagt út í meiri einkavæðingu á hennar vakt? Verður hæstv. ráðherra staðfasta foreldrið sem dregur skýr mörk eða mun hún áfram hrekjast undan eins og í atkvæðagreiðslunni um vantraustið?