148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

áherslur í heilbrigðismálum.

[15:21]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna og ekki síst samlíkinguna því að ég held að hún sé góð. Ég held að það sé kannski minn besti undirbúningur að því að verða stjórnmálamaður að vera fjögurra barna móðir. Einmitt vegna þess sem hv. þingmaður rekur hér varðandi mörk.

Sú sem hér stendur gegnir embætti heilbrigðisráðherra og mun gegna því í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna og í samræmi við þau orð sem sú sem hér stendur hefur látið falla varðandi fyrst og fremst uppbyggingu opinbera heilbrigðiskerfisins. Ég lít svo á að það sé okkar mikilvægasta verkefni og raunar algerlega í samræmi við þær ábendingar sem við erum að fá núna, til að mynda frá Ríkisendurskoðun, um ómarkviss kaup heilbrigðisþjónustu Sjúkratrygginga sem endurspeglar þá niðurstöðu sem við sitjum núna uppi með eftir þessa tilraun sem ég vil kalla svo, og súpa seyðið af takmarkaðri stefnumörkun í málaflokknum.

Ég mun hér eftir sem hingað til halda áfram þeirri siglingu að halda utan um opinbera heilbrigðiskerfið og stefna að markvissara utanumhaldi um heilbrigðiskerfið. Ég held að það sé eftirspurn eftir því. Ég hef talað við fulltrúa allra þingflokka í þessum efnum. Fyrst hv. þingmaður nefnir samskipti hef ég lagt upp úr því að hitta fulltrúa allra þingflokka til að ráða ráðum mínum, og þingheims, um framtíðarsýn í heilbrigðismálum. Ég tel að þingið sé mér sammála að mikilvægt sé að tryggja sameiginlega sýn á framtíðarskipan íslenska heilbrigðiskerfisins sem sé fyrst og fremst með jöfnuð að leiðarljósi, óháð efnahag og óháð búsetu. Það er mitt verkefni.