148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

smávægileg brot á sakaskrá.

[15:44]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég er ekkert viss um að dómsmálaráðherra þurfi að gera nokkurn skapaðan hlut ef væntingarnar standa til þess að halda óbreyttu ástandi.

Ég held hins vegar að spurningin sem hv. þingmaður hljóti að spyrja sig og vilja fá svar við, og þá hjá löggjafanum fyrst og fremst, ekki ráðherranum sérstaklega, sé: Hvaða brot eru smávægileg? Hvaða brot eru smávægileg fíkniefnabrot? Hvernig eru þau? Það liggur fyrir kannski með umferðarlagasektir, það hefur verið skilgreint sérstaklega hvað séu smávægilegar sektir í þeim efnum. Það kann að vera tilefni til, til að einfalda alla framkvæmd, að slík brot fari kannski ekki inn á sakaskrá. En ég held að spurningin hljóti að lúta að því hvaða brot það eru sem eru smávægileg. Og af hverju bara fíkniefnabrot? Ef við komumst nú að samkomulagi um hvaða brot séu smávægileg þar, má þá ekki líta á annars konar brot? Smávægilega þjófnaði eða smávægilegt ofbeldi?

Ég held að meginreglan hljóti að vera þannig að brot, ef þau eru dæmd og mönnum hefur verið gerð refsing, komi inn á sakaskrá. (Forseti hringir.) Síðan höfum við hina spurninguna, hvaða upplýsingar úr sakaskrá eru almennt opinberar. (Forseti hringir.)Um það gilda reglur sem ég árétta að sé full ástæða fyrir löggjafann að fjalla um.