148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

frestun á framlagningu fjármálaáætlunar.

[15:59]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Á fundi forseta með þingflokksformönnum fyrr í dag var okkur formönnum þingflokka tilkynnt að forseta hafi borist tilkynning frá fjármálaráðherra um að sá hinn sami hyggist fara á svig við lög um opinber fjármál, nánar tiltekið 5. gr. þeirra laga sem segja til um að ráðherra skuli leggja fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára fyrir Alþingi eigi síðar en 1. apríl ár hvert.

Ráðherra telur það víst afsökun, með leyfi forseta, að nú beri svo við að 1. apríl beri upp á páskadag, auk þess sem gerð fjármálaáætlunar sé vandasamt verkefni og hafi tekið lengri tíma en áætlað var. Og þess vegna hyggist fjármálaráðherra fara á svig við lög um opinber fjármál og leggja þetta síðar fram, eða 5. apríl.

Herra forseti. Það fékkst ekki staðfest á fundi okkar í morgun og liggur enn í lausu lofti hvernig forseti hyggst bregðast við þessari tilkynningu til þingsins. Síðasta ríkisstjórn hafði talsvert skemmri tíma til þess að vinna fjármálaáætlun og tókst þó að koma henni í hús fyrir 1. apríl.

Ég vil minna hæstv. forseta á að hann er forseti þingsins alls og ég vil hvetja hann til dáða í því að krefjast þess að fjármálaráðherra gyrði sig í brók og skili þessu á tilsettum tíma til okkar í þinginu.