148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

frestun á framlagningu fjármálaáætlunar.

[16:04]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Það er óþolandi að fjármálaráðuneytið með undirskrift ráðuneytisstjórans skuli tilkynna Alþingi einhliða að ekki eigi að virða þau lög sem samþykkt voru hér, lög um opinber fjármál. Í bréfinu stendur að ráðuneytið hyggist ekki virða lögin heldur koma fram með áætlunina miðvikudaginn 5. apríl eftir páska, sem ég held reyndar að sé 4. apríl. Það breytir ekki öllu. Hitt er annað að þingið þarf að gera alvarlegar athugasemdir við það að fjármálaráðuneytið skuli einhliða tilkynna Alþingi að það ætli ekki að virða þessi lög.

Ég óska eftir því að forseti kalli saman þingflokksformenn þegar búið er að gera athugasemdir við þetta til fjármálaráðuneytisins og upplýsi um viðbrögð ráðuneytisins. Það er ekki hægt að búa við það, herra forseti, að okkur sé tilkynnt þetta sisvona. Það gengur ekki.

Síðan er að sjálfsögðu hægt að nota tímann betur og koma þessu til okkar vel fyrir páska. Það þarf enginn að segja mér að starfsmenn ætli að dunda sér við það í fjármálaráðuneytinu (Forseti hringir.) á páskadag, annan í páskum eða föstudaginn langa að vinna í fjármálaáætlun.