148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

frestun á framlagningu fjármálaáætlunar.

[16:06]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Forseti. Verkleysi þessarar ríkisstjórnar er að verða æðivandræðalegt en maður hélt í það minnsta að stjórnin væri þá að vinna í öðrum málum, eins og t.d. ágætri fjármálaáætlun. Nú kemur í ljós að svo er alls ekki. Maður spyr sig í ljósi þess sem hv. þm. Pawel Bartoszek kom inn á, að þessi dagsetning, 1. apríl, hefur legið fyrir í nokkurn tíma. Lög um opinber fjármál eru hugsuð til að festa öguð og fagleg vinnubrögð í sessi í ríkisfjármálakerfinu. Í þeim kemur skýrt fram að fjármálaáætlun eigi að skila til þingsins eigi síðar en 1. apríl. Þetta er ekki sirka eða um það bil. „Eigi síðar“ er alveg skýrt í lögunum og á því er engin undantekning.

Ef fjármálaráðuneytið treystir sér ekki til að fara eftir þessu einfalda grundvallaratriði spyr maður hvort það sé eitthvað annað sem ráðuneytið treystir sér ekki til að fara eftir í þessum efnum. Svo virðist hreinlega vera þegar maður horfir á að öll grundvallaratriði sem sett eru fram í lögum um opinber fjármál varðandi bætta umgjörð opinberra fjármála (Forseti hringir.) eru þverbrotin af þessari ríkisstjórn, nú síðast það einfalda atriði að leggja fjármálaáætlun fyrir þingið á réttum tíma.