148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

frestun á framlagningu fjármálaáætlunar.

[16:07]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Við erum að tala um átta vinnudaga sem koma á milli þess sem fjármálaáætlun átti að koma fram, 20. mars, og þess tíma sem á að skila núna samkvæmt þessari tilkynningu.

Þetta þýðir að þingið hefur allt miklu styttri tíma til afgreiðslu á fjármálaáætluninni sem alla jafna ætti að taka allt vorþingið í umfjöllun. Þetta er jafn veigamikið og fjárlögin sem eiga að vera fyrsta málið á dagskrá á haustþingi. Þar af leiðandi ætti fjármálaáætlunin líka að vera fyrsta mál á vorþingi. Það að leggja hana fram 1. apríl er til að byrja með allt of seint. Það var ákveðin samstaða um það á síðasta kjörtímabili að stefna að því að leggja fjármálaáætlunina fram enn fyrr en nú var ætlað samkvæmt starfsáætlun.

Ég verð að kvarta undan þeirri afturför sem er að verða hérna. Ég hef t.d. lagt fram breytingarfrumvarp við lög um opinber fjármál þannig að fjármálaáætlun verði lögð fram (Forseti hringir.) 1. febrúar. Það er nokkuð sem við ættum að stefna að þannig að þingið hafi mjög rúman tíma til að afgreiða svona mál og sé ekki bara að gangast inn á þann stimpilstofnunarstimpil sem hún hefur.