148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

frestun á framlagningu fjármálaáætlunar.

[16:18]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Það sem við erum að biðja um hér er að virðulegur forseti standi með okkur í þinginu og standi með þeirri skýlausu kröfu sem við höfum á því að fá afhenta fjármálaáætlun fyrir 1. apríl. Það stendur bara ansi skýrt að við eigum að fá þessa áætlun í hendur fyrir þann tíma.

Það að hægt sé bara að tilkynna okkur að við fáum hana ekki eins og ekkert sé sjálfsagðara og að við fáum hana fimm dögum seinna í þinginu þykja mér ekki góð vinnubrögð. Það þykir mér ekki í anda þess að efla traust og virðingu Alþingis. Mér þykir það ekki vinna í átt að því að styrkja Alþingi gagnvart framkvæmdarvaldinu, að það geti bara valsað hér um og tilkynnt okkur að það ætli ekki að fylgja því að veita okkur þær upplýsingar sem við eigum að fá á þeim tíma sem við eigum að fá þær.

Ég óska þess enn og aftur eindregið að forseti sendi formlegt bréf til ráðherra og krefjist þess að hann fari að lögum.