148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

um fundarstjórn.

[16:55]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Frú forseti. Ég kem upp vegna þess sem við vorum að ræða, málsins sem við ræddum áður en við hófum þennan dagskrárlið, og svör hæstv. forseta hér áðan. Ég verð að segja eins og er að ég er frekar döpur yfir þeim svörum sem við fengum af hálfu hæstv. forseta. Mér fannst það ekki vera einlægur ásetningur hjá forseta að ætla að hafa aðhald gagnvart framkvæmdarvaldinu, að vera merkisberi, fánaberi löggjafarvaldsins sem við þurfum á að halda. Vísað var í bréf þar sem beðið var um einhverja tilfærslu á fjármálaáætlun, frá 2016 held ég.

Þetta eru ný lög. Reynum að vanda okkur. Reynum að fara strax eftir löggjöfinni. Gefum ekki í skyn að gera eigi tilslakanir hér og þar því að fjármálaráðuneytið þurfi einn eða tvo daga í viðbót. Gefum skýr fyrirmæli til framkvæmdarvaldsins af hálfu forsetaembættis í þinginu og segjum: Skilið þessari fjármálaáætlun fyrir 1. apríl, farið að lögum, gerið það, í guðanna bænum, ekki síst upp á virðingu þingsins að gera.