148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

framkvæmd og eftirfylgni barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

329. mál
[17:34]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er annar tveggja mannréttindasamninga sem hafa beint lagagildi hér á landi, eins og hv. þingmaður þekkir. Það sýnir hversu mikið vægi sáttmálanum hefur verið veitt. Það er erfitt að gera því skil í fáum orðum hvernig barnasáttmálanum hefur verið hrundið í framkvæmd hér á landi enda hefur sáttmálinn haft gífurleg áhrif og mikil á réttindi barna og viðhorf til þeirra.

Um leið og barnasáttmálinn var undirritaður fyrir Íslands hönd var hafist handa við að laga íslenskan rétt að ákvæðum hans. Voru gerðar ýmsar breytingar á mörgum lagaákvæðum í þeim tilgangi að tryggja betur réttindi barna. Frá þeim tíma hefur almennt verið litið til barnasáttmálans við lagasetningu sem varðar börn og má til dæmis finna grundvallarreglur hans víða í íslenskri löggjöf.

Þá vil ég líka benda á að embætti umboðsmanns barna var komið á fót árið 1995. Umboðsmaður barna hefur m.a. það hlutverk að fylgja eftir réttindum barna og stuðla að því að barnasáttmálinn sé virtur hér á landi.

Lögfestingin var mikilvægt skref í að koma sáttmálanum í framkvæmd hér á landi. Innleiðingin á sáttmálanum er þó verkefni sem er sífellt í gangi og mikilvægt að fylgja því stöðugt eftir að barnasáttmálinn sé raunverulega virtur, bæði við lagaframkvæmd og fyrst og fremst lagasetningu.

Þá má einnig nefna að ráðuneytið styrkti verkefnið Barnvæn sveitarfélög sem UNICEF á Íslandi og umboðsmaður barna standa fyrir. Markmið þess er að styðja við innleiðingu barnasáttmálans á vettvangi sveitarfélaga en þau annast stóran hluta þeirrar þjónustu sem hefur áhrif á daglegt líf barna.

Ég vil að lokum nefna að Ísland er skuldbundið til að skila reglulega skýrslum til barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna um framkvæmd sáttmálans hér á landi. Í kjölfarið gefur nefndin út tilmæli um það sem hún telur betur mega fara þegar kemur að framkvæmd sáttmálans hér á landi. Ísland fékk síðast athugasemdir frá nefndinni árið 2012 og vann sérstakur hópur að því að fylgja þeim eftir.

Ýmsar breytingar hafa verið gerðar til að mæta athugasemdum nefndarinnar og má þar helst nefna lögfestingu barnasáttmálans sjálfs árið 2013.

Ísland á að skila næstu skýrslu sinni til nefndarinnar á þessu ári. Ákveðið hefur verið að skipa sérstakan vinnuhóp með fulltrúum frá nokkrum ráðuneytum til þess að vinna þá skýrslu og fylgja henni eftir. Auk þess er stefnt að því að sami hópur muni starfa áfram til að fylgja eftir þeim tilmælum sem Ísland kann að fá frá nefndinni í samvinnu við nýstofnaðan stýrihóp Stjórnarráðsins um mannréttindi.